149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

77. mál
[14:53]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til að leiðrétta það sem fram kom í máli hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur. Persónuverndarlögin gilda vissulega, en hér er um að ræða sérstaka undanþágu fyrir stofnunina til að sækja svo víðtækar upplýsingar hjá Fangelsismálastofnun og Félagsþjónustu sveitarfélaga hjá sveitarfélögunum.

Mig langar að útskýra fyrir ykkur stöðuna. Það kann að vera að fangi sé í afplánun og vilji áfram fá að greiða sitt meðlag þó að lögin segi að hann kunni að vera undanskilinn því. Fanginn vill mögulega ekki að upplýsingar um veru hans í fangelsinu séu á víð og dreif, að innheimtustofnun spyrjist fyrir um það algjörlega án hans samþykkis. Sama má segja um Félagsþjónustu sveitarfélaga. Þar kann að vera íbúi sé meðlagsskyldur en vilji mögulega ekki að starfsfólk bæjarskrifstofunnar í litlu sveitarfélagi viti af því að viðkomandi sé að greiða meðlag með barni.

Þetta eru slíkar persónulegar upplýsingar að meðlagsgreiðandinn á að fá að ráða því (Forseti hringir.) hvort allt starfsfólk skrifstofunnar viti um umrætt barn eða ekki. Það er bara svona. Þetta eru bara viðkvæmar persónuupplýsingar og ég bið þingheim að hugsa málið.