149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

landgræðsla.

232. mál
[15:03]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég styð þetta frumvarp heils hugar og er ánægður með að lög um landgræðslu séu endurskoðuð, en ég skrifaði undir álitið með fyrirvara. Fyrirvarinn felst í því að ég er óánægður með að valdheimildir stofnunarinnar eru rýmkaðar svo mikið sem raun ber vitni, eins og er reyndar algengt meðal stofnana í dag. Ég er óánægður með það og tel það viðsjárvert og reyndar allt of algengt í stjórnsýslunni. Þá er ég að tala um sektarvald sem fært er Landgræðslunni í hendur í 25. gr. laganna. Ég er einnig óánægður með 24. gr. þar sem dagsektir sem Landgræðslunni er heimilað að leggja á þá sem gerast brotlegir eru allt of háar, 500.000 kr. Mér finnst þar allt of mikið í lagt, og líka að Landgræðslunni séu falin ný verkefni, eins og fram kemur í 23. gr.