149. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[15:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Við erum nú við 3. umr. um fjáraukalög 2018. Nefndin hélt fund á milli umræðna og umræðuefnið var fjárhagsstaða og rekstrarhorfur hjá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Þannig háttar til að hv. fjárlaganefnd hefur bæði sl. haust og á þessu hausti hitt stjórnendur heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og er ágætlega meðvituð um stöðu þeirra. Við fjárlagagerðina árið 2018 var bætt við 400 millj. kr., auk þess að leggja til breytingartillögu um verulega fjármuni til tækjakaupa. Þeim 400 milljónum var síðan með varanlegum hætti, eins og sagt er, bætt inn í rekstrargrunn þessara stofnana, auk þess sem við 2. umr. fjárlaga í haust gerði meiri hluti fjárlaganefndar tillögu um breytingu á fjárlagafrumvarpinu vegna framlaga til kaupa á myndgreiningarbúnaði fyrir heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni.

Við fengum á fund okkar í dag fulltrúa frá velferðarráðuneytinu og fyrir okkur lá líka erindi frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Við fórum í gegnum þá umræðu. Það er miður að þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar voru í fyrra á rekstrargrunni heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni eru erfiðleikar í rekstri þeirra. Við vorum ágætlega upplýst um það og þá stöðu. Það er mjög alvarlegt mál og við drögum enga fjöður yfir það að á þessu þarf að taka með nokkuð heildstæðri nálgun og miklu vandaðri umræðu en að geta endilega brugðist við vanda einstakra heilbrigðisstofnana við 3. umr. fjáraukalaga. Eins og ég segi, bregðast þarf við því með miklu vandaðri og betur undirbúna og dýpri umræðu en við höfum færi á að taka núna.

Varðandi Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sérstaklega fékk sú stofnun ríflega 50 milljónir af þeim 400 milljónum sem bætt var inn í rekstrargrunn þeirra í fyrra og síðan með varanlegum hætti núna í haust til að mæta því sem við getum sagt að sé hröð fjölgun íbúa. Því hefur verið brugðist við þeim gagnrýnisþætti sérstaklega og þeir fjármunir verða þá áfram inni í rekstri hennar.

Fjárlaganefnd leggur áherslu á að fyrir vinnu fjármálaáætlunar er kemur nú fram á vorþingi og við undirbúning næstu fjárlaga verði búið að fara betur yfir og taka nánari rýni á rekstur heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni því að við viljum ekki að við völdum þeim með einhverjum hætti meiri vandræðum. Þess vegna er þessi staða vonbrigði eftir þær aðgerðir sem við höfðum gripið til og töldum okkur vera búin að koma þeim þætti heilbrigðiskerfisins betur fyrir vind en nú virðist vera raunin.

Virðulegur forseti. Við gerum ekki breytingartillögu á milli umræðna en ég vil að lokum aðeins taka það fram að hv. fjárlaganefnd er áfram um að vinna með velferðarráðuneyti og hæstv. heilbrigðisráðherra að því að greina stöðu þessara mikilvægu stofnana sem eru allt í kringum landið og að með samstilltum aðgerðum náum við að bæta rekstur þeirra.