149. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[15:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir mjög góða ræðu áðan. Hún lýsti vanda þessara heilbrigðisstofnana, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, mjög vel. Ég hef í sjálfu sér ekki neinu þar við að bæta. Ég vil geta þess að sá sem hér stendur hefur flutt breytingartillögur til að mæta þessum vanda, bæði við fjárlög og fjármálaáætlun á síðasta þingi og þær tillögur voru allar felldar. Hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði áðan að taka þyrfti dýpri umræðu um málefnið.

Ég átta mig ekki alveg á þessum orðum vegna þess að vandinn er svo augljós að það þarf ekki að taka neitt dýpri umræðu um hann. Það þarf bara að leysa vandann og það gerum við með því að auka fjárheimildir til þessara heilbrigðisstofnana vegna þess þær hafa verið látnar sitja á hakanum og sérstaklega Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Verið hefur fordæmalaus fólksfjölgun á svæðinu en á sama tíma fær t.d. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hlutfallslega lægri fjárveitingar en aðrar stofnanir á landsbyggðinni. Það þarf ekkert að taka neitt dýpri umræðu um það. Það er bara ljóst. Það liggur fyrir. Það þarf að ráðast að rótum vandans og það er ekki nóg að tala bara um vandann í fjármálaáætlun, að það standi til o.s.frv. að ráða bót á. Jú, það stendur í fjármálaáætlun 2019–2023 en það á ekkert að gera árið 2019 þannig að það er alveg ljóst í mínum huga að það er eins og það sé einhver verkkvíði hjá ríkisstjórninni að takast á við þetta mál. Þetta er einfalt mál. Ég minni t.d. á að fyrir síðustu kosningar var kosningaloforð Framsóknarflokksins, sem birti heilsíðuauglýsingu á Suðurnesjum, að setja 2 milljarða kr. til uppbyggingar á Suðurnesjum og þar á meðal í Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Á sama tíma fellir hann allar breytingartillögur um að bæta í fjárheimildir til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Við sjáum að það er enginn vilji hjá ríkisstjórnarflokkunum, Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Vinstri grænum, til að leysa þennan vanda. Það er náttúrlega alvarlegt mál, herra forseti, að menn skuli ekki gera sér grein fyrir því hvernig ástandið er.

Ég nefni það hér að t.d. á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er biðtíminn eftir símatíma, takið eftir: símatíma til læknis þrjár vikur. Það sjá allir að það er ófremdarástand. Íbúar á Suðurnesjum eru farnir að leita til Reykjavíkur til að sækja sér heilbrigðisþjónustu og fara á heilsugæslustöð. Það er orðið tímabært að menn fari að standa við stóru orðin og hætta að tala um vandann og fari að taka á honum.

Talað er um að það sé álitamál hvort sú breytingartillaga sem ég stend að eigi heima í fjáraukanum. Við ræddum fjáraukann í gær og þar eru fjölmörg atriði sem eiga ekkert heima innan hans. Þá spyr maður: Sáu menn þetta fyrir? Sáu menn vandann fyrir? Ef menn segja já, þá á hann ekki heima í fjáraukanum. En ég segi bara eins og er: Stjórnvöld sáu ekki þennan vanda fyrir vegna þess að þau hafa ekkert brugðist við. Það er bara þannig. Ég sé ekki að þessi tillaga falli utan fjárauka vegna þess að þetta var ófyrirséð. Þetta er fólksfjölgun sem á sér enga hliðstæðu og það er siðferðileg skylda okkar þingmanna að bregðast við svona vandamáli þegar fólksfjölgun er svo mikil sem raun ber vitni. Ég bind miklar vonir við að menn átti sig á því að það þarf að bregðast við þessu. Orðum þurfa að fylgja athafnir og það er ekki nóg að tala endalaust um vandamálið. Við skuldum fólki það, íbúum á þessum svæðum, bæði á Suðurlandi og Suðurnesjum, að taka á þessum vanda.

Varðandi Suðurlandið hefur hin fordæmalausa fjölgun ferðamanna haft veruleg áhrif á þá stofnun. Það er vandi í Vestmannaeyjum. Þar er ekki fæðingarþjónusta þannig að það þarf á mörgum sviðum að bregðast við, ekki bara varðandi heilsugæsluna heldur líka almennu sjúkrahúsþjónustuna hjá þessum tveimur stofnunum. Ég hvet þingmenn til að samþykkja þessa tillögu. Hún er sanngjörn og eðlileg og ég vona að menn sýni í verki að þeir vilji standa við það sem þeir hafa sagt um þessar stofnanir, að það þurfi að mæta þeim.