149. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[15:43]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég hef talað mikið um skilyrði laga um opinber fjármál, að til þess að hægt sé að leita aukinna fjárheimilda í varasjóði eða fjárauka þurfa útgjöldin að vera ófyrirsjáanleg, óhjákvæmileg, tímabundin og ekki unnt að bregðast við með öðrum hætti.

Ég get alveg tekið undir að þetta séu ófyrirsjáanleg útgjöld. Fjölgunin er meiri en gert var ráð fyrir. Gert var ráð fyrir ákveðinni fjölgun en hún varð meiri. Það var ekki fyrirsjáanlegt. Sú breyting er fyrirsjáanleg fyrir næsta ár þannig að ekki er hægt að nota þau rök á næsta ári, en þá ætti að vera búið að gera upp þann mun sem var á miðað við þá fjölgun sem var í ár fyrir næsta ár. Hvort það er nægilega vel gert veit ég ekki. Í kjölfarið á þessari fólksfjöldabreytingu verða að sjálfsögðu óhjákvæmileg útgjöld í kjölfarið, það fólk sem bætist við og flytur þangað þarf að sækja sér læknisþjónustu.

Þá er stóra spurningin hvort þetta séu tímabundin útgjöld. Þar pældi ég aðeins í því annars vegar hvort vandamálið væri að þetta væru tímabundin framlög, ekki varanleg fjárframlög, og hins vegar hvort vandamálið sjálft væri tímabundið eða ekki. Vandamálið sjálft er augljóslega ekki tímabundið. Fólksfjölgunin varð. Það er ekkert tímabundið við það. En hins vegar segir í lögum um opinber fjármál að bregðast skuli við útgjöldum sem eru tímabundin.

Útgjöld sem verða vegna þess að fólksfjölgun varð meiri en gert var ráð fyrir er tímabundið framlag, það eru tímabundin útgjöld vegna þess. Það á ekki við á næsta ári af því að þá er sá grunnur og sú fólksfjölgun orðin að veruleika. Þannig að gagnvart því skilyrði að gert var ráð fyrir, segjum 10% aukningu, en hún varð 20% — gefum okkur þær tvær tölur — er það tímabundin útgjaldabreyting, þau 10% sem þar munar. Á þeim forsendum tel ég augljóst að hægt sé að rökstyðja það þannig að þetta séu ófyrirsjáanleg útgjöld.

Kannski var áætlunin léleg. Það má vel spyrja sig að því hvort að áætlanagerðin hafi verið nægilega nákvæm og nægilega vel hugsuð, en niðurstaðan varð samt þessi. Í kjölfarið er hún óhjákvæmileg af því að þetta er almenn heilbrigðisþjónusta, og einnig á þeim forsendum að þessi breyting varð nú í ár. Breytingin væri tímabundin fyrir árið í ár, það framlag sem veitt væri í fjárauka. Það á ekki við á næsta ári. Það væri ekki hægt að lagfæra það sem á vantar á næsta ári ef ekki hefur verið gert ráð fyrir því í fjárlögum 2019. Þá er það ekki lengur tímabundið eða ófyrirsjáanlegt eða neitt svoleiðis. Á þeim forsendum tel ég að hægt sé að rökstyðja það. Ég var ekki á þeirri skoðun.

Til að byrja með voru mín fyrstu viðbrögð þau að þetta væru ekki tímabundin útgjöld, en fólk skoðaði málið og velti fyrir sér hvort þetta væri tímabundið vandamál eða ekki, tímabundin útgjöld eða ekki, og á hvaða forsendum hægt væri að rökstyðja það hvort á sínum staðnum, hvað ætti við samkvæmt lögum um opinber fjármál.

Ég tel að miðað við þau ströngu skilyrði sem sett eru í lögum um opinber fjármál sé þetta óhjákvæmileg niðurstaða, að bara munurinn á fólksfjölguninni milli þess sem gert var ráð fyrir og raunfjölgunarinnar og bara fyrir árið í ár, sé innan laga um opinber fjármál.