149. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[15:50]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Það er öllum ljóst að ekki hefur verið brugðist með fullnægjandi hætti við fjölgun íbúa annars vegar og fjölgun ferðamanna hins vegar á Suðurnesjum og Suðurlandi þegar kemur að fjármögnun á heilbrigðisstofnununum tveimur sem þar eru. Það var hughreystandi að heyra bæði hv. formann fjárlaganefndar og varaformann fjárlaganefndar gefa þær yfirlýsingar áðan í umræðunni að á þessu verði tekið. Það mun sannarlega ekki standa á mér að taka á þessu með þeim í fjárlaganefnd þegar þar að kemur.

Ég mun að sjálfsögðu standa við það nefndarálit sem ég hef sjálfur undirritað um breytingar á fjáraukalögunum, enda veit hv. flutningsmaður þeirrar tillögu sem hér er komin til atkvæða að sannarlega er 3. umr. um fjáraukalögin ekki réttur vettvangur til að taka á þeim vandamálum sem hún var hér að lýsa.

Þess vegna mun ég segja nei við þessari tillögu.