149. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2018.

jólakveðjur.

[16:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir hönd okkar alþingismanna flytja hæstv. forseta og varaforsetum kærar þakkir fyrir samstarfið í vetur og hlý orð í garð okkar þingmanna. Ekki síst vil ég þakka hæstv. forseta samstarf við okkur þingflokksformenn en þar hefur áratugaþingreynsla forseta ekki síst notið sín.

Ég vil einnig fyrir hönd alþingismanna þakka starfsfólki Alþingis fyrir góð störf og fúslega veitta aðstoð. Síðustu vikurnar hafa verið mörgum sem hér sitja erfiðar og öll höfum við haft áhyggjur af virðingu Alþingis Íslendinga og af dvínandi trausti til stjórnmálamanna.

Okkur hér inni greinir á um margt og það er eðlilegt að hart sé tekist á um ólík sjónarmið, en Alþingi Íslendinga er ein af grunnstoðum samfélags okkar og ef ekki ríkir innbyrðis virðing og traust innan veggja Alþingis er þess ekki að vænta hér utan dyra. Við verðum að finna leiðir til að breyta stöðunni Alþingi í hag.

Ég vona að jólin verði gleðileg og að við mætum aftur vel stemmd til að takast á við þær áskoranir sem bíða okkar hér í þessum sal á nýju ári og verða vonandi til þess að efla Alþingi og hvert og eitt okkar sem manneskjur.

Ég ítreka þakkir okkar til hæstv. forseta og starfsfólks Alþingis og bið þingmenn að taka undir orð mín með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]