149. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2018.

þingfrestun.

[16:22]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Að ég, að tilskildu samþykki Alþingis, veiti forsætisráðherra umboð til þess að fresta fundum Alþingis, 149. löggjafarþings, frá 14. desember 2018 eða síðar, ef nauðsyn krefur, til 21. janúar 2019.

Gjört á Bessastöðum, 13. desember 2018.

Guðni Th. Jóhannesson.

___________________

Katrín Jakobsdóttir.

 

Forsetabréf um frestun á fundum Alþingis.“

 

Ég vil nýta tækifærið hér og þakka fyrir gott samstarf framkvæmdarvalds og Alþingis það sem af er þessu þingi. Ég átti góðan fund með forsætisnefnd og þingflokksformönnum í haust þar sem kom fram að við vorum öll sammála um mikilvægi þess að skipuleggja þingstörfin betur. Það er gleðilegt að sjá að það hefur gengið eftir að einhverju leyti að dreifa þingmálum jafnar yfir veturinn og hafa skýrara skipulag á hlutum. Það er hluti þess að við ljúkum núna þingi á réttum tíma samkvæmt starfsáætlun.

Ég vonast til þess að þetta góða samstarf geti haldið áfram þegar við fundum á ný, forsætisnefnd, þingflokksformenn og sú sem hér stendur, á nýju ári og förum yfir framhald þessa þings.

En samkvæmt því umboði sem ég las hér upp áðan og með vísan til samþykkis Alþingis lýsi ég því yfir að fundum Alþingis, 149. löggjafarþings, er frestað.

Ég óska þingmönnum, starfsfólki Alþingis og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og velfarnaðar á nýju ári.