149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:18]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hægt væri að ræða mörg mál hér í upphafi nýs vorþings, getum við sagt. Ég ætla sérstaklega að gera tvö mál að umtalsefni og ekki nýta mínútur mínar til að fara í langar upptalningar.

Í fyrsta lagi ætla ég að ræða aðeins stöðuna á vinnumarkaði og í öðru lagi að ræða aðeins stöðuna við endurskoðun stjórnarskrár.

Vinnumarkaðsmál hafa verið fyrirferðarmikil á undanförnum vikum og mánuðum og verða það áfram í pólitískri umræðu. Þar hafa stjórnvöld unnið mikið starf í því að styrkja samtal aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Fjórtándi samráðsfundur þessara aðila fer fram á morgun og verða þar kynntar niðurstöður átakshóps um húsnæðismál sem ég skipaði fyrir jól. Við höfum lýst okkar einbeitta vilja til að finna lausnir, ekki síst hvað varðar framboðsvanda á húsnæðismarkaði en líka hvað varðar ýmis önnur mál eins og réttindi og vernd leigjenda, innkomu þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign og fleira.

Þetta er forgangsmál. Þetta er eitt af því sem verkalýðshreyfingin hefur lagt þunga áherslu á, enda er það forgangsmál að búa við öryggi og fyrirsjáanleika í húsnæðismálum. Átakshópurinn mun kynna niðurstöður sínar á morgun. Þar hafa núna í tvo mánuði setið saman fulltrúar ríkis, sveitarfélaga, atvinnurekenda og launafólks. Þau munu gera tillögur að lausnum.

Ljóst er að þörfin er töluverð; hún hefur verið greind á bilinu 5.000–8.000 íbúðir. Þegar tekið er tillit til þess húsnæðis sem nú þegar er í byggingu má segja að óuppfyllt þörf á næstu árum sé um 2.000 íbúðir, sem vantar upp á.

Við þurfum að taka höndum saman um að leysa þennan vanda og við þurfum að tryggja fullnægjandi framboð af húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir okkur öll.

Á næstunni munu stjórnvöld sömuleiðis kynna tillögur sínar að skattkerfisbreytingum, en í tengslum við endurnýjun kjarasamninga fyrir tæpu ári boðaði ríkisstjórnin að þær breytingar sem gerðar yrðu á tekjuskattskerfinu myndu miða að því að koma til móts við tekjulægri hópa og lægri millitekjuhópa. Ég bind miklar vonir við að þær tillögur sem við munum sjá á næstunni, bæði hvað varðar skattkerfið og húsnæðismál, muni greiða fyrir því að lenda kjarasamningum með farsælum hætti á vinnumarkaði.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna í tengslum við kjarasamninga er félagsleg undirboð, meinsemd sem ekki á að líðast í samfélagi okkar. Við slíkum brotum eiga að vera skýr viðurlög. Starfshópur á vegum félags- og barnamálaráðherra vinnur nú að tillögum til að koma í veg fyrir félagsleg undirboð. Samhliða þarf að líta til nýrrar aðgerðaáætlunar gegn mansali sem er á höndum dómsmálaráðherra. Þá vinnur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að frumvarpi um aðgerðir gegn kennitöluflakki. Allt þjónar það því markmiði að byggja heilbrigðari vinnumarkað í sameiningu.

Ég hlýt að halda því til haga að nú þegar hafa stjórnvöld lagt sitt af mörkum til að bæta lífskjör almennings, sem skiptir máli fyrir þessa kjarasamninga. Í vor hækkuðum við greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði og Ábyrgðasjóði launa. Hvort tveggja skiptir miklu máli núna, ekki síst fyrir þá sem verða fyrir þeirri ógæfu að missa vinnuna þegar um hægist í vexti hagkerfisins, t.d. í þeim fjöldauppsögnum sem við höfum séð á síðustu vikum og mánuðum.

Aðrar breytingar sem gerðar hafa verið eru þær að kjararáð var lagt niður. Var það samkvæmt sameiginlegri tillögu nefndar þar sem sátu fulltrúar stjórnvalda og aðilar vinnumarkaðarins. Framtíðarfyrirkomulag launa æðstu embættismanna er nú til þinglegrar meðferðar og er stefnt að því að gera það fyrirkomulag í senn gagnsætt og fyrirsjáanlegt í takt við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Ég tel að það verði mikið framfaraskref.

Sömuleiðis voru gerðar breytingar á barnabótum fyrir jól. Settir voru nýir 1,6 milljarðar inn í kerfið sem gerir það að verkum að barnabætur hækka hjá tekjulágum og þeim fjölgar um 2.200 sem rétt eiga á barnabótum. Sett voru samræmd viðmið fyrir efri og neðri mörk tekjuskattskerfisins sem tryggja aukinn jöfnuð og persónuafsláttur var hækkaður umfram verðlag.

Ég hef síðan tekið undir þá kröfu verkalýðshreyfingarinnar að það sé eðlilegt að efnahagslegur og félagslegur stöðugleiki verði ræddur við borð nýs þjóðhagsráðs. ASÍ hefur enn sem komið er hins vegar ekki fallist á að taka sæti í þjóðhagsráði en fulltrúar opinberu félaganna á vinnumarkaði og atvinnurekendur hafa tekið vel í slíkar hugmyndir. Þar með myndum við formfesta vettvang stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins þar sem við myndum ræða þessi mál sameiginlega, þ.e. hvernig við getum náð markmiðum um að tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.

Hluti af því að gera umræðu um kjaramál skýrari, gagnsærri og betri er svo sá gagnagrunnur sem við opnuðum nú fyrir helgi, tekjusagan.is, þar sem hægt er að skoða hvernig ráðstöfunartekjur hafa þróast út frá raungögnum undanfarinna 25 ára þar sem hægt er að skoða félagslegum hreyfanleika, þar sem hægt er að skoða hvernig ólíkir hópar koma út þegar tekið er tillit til ráðstöfunartekna. Það er athyglisvert að frá því að vefurinn var opnaður á föstudaginn hafa 15.000 manns heimsótt hann og kynnt sér hann, sem sýnir að það er mikill áhugi á að hafa aðgang að slíkum gögnum. Þau eru algjörlega nauðsynleg til að umræðan skili raunverulegum árangri. Að hafa raungögn, staðreyndir aðgengilegar og opnar öllum, er algjört lykilatriði til þess.

Virðulegi forseti. Formenn flokka hafa nú átt níu fundi um stjórnarskrárbreytingar, en í upphafi þessa kjörtímabils lagði ég fram þá hugmynd að við myndum ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum, þessu og því næsta. Þar var enn fremur lagt til ákveðið vinnulag, þ.e. hvernig viðfangsefnin yrðu tekin fyrir, í hvaða röð og hvernig staðið yrði að vinnunni. Á síðasta fundi okkar, sem haldinn var sl. fimmtudag, lagði ég fram endurskoðað minnisblað sem tekur mið af því hvernig vinnan hefur þróast. Það er ljóst að umræða um einstök viðfangsefni er mislangt á veg komin. Sumt höfum við rætt árum og áratugum saman. Ég nefni sem dæmi ákvæði um auðlindir í þjóðareign. Sömuleiðis hefur mikið verið rætt um ákvæði um umhverfisvernd og þjóðaratkvæðagreiðslu um framsal valdheimilda. Það eru þau mál sem við settum fyrst á dagskrá formanna og fulltrúa flokkanna, en þetta eru ekki þau einu.

Enn fremur höfum við tekið til umræðu forsetaembættið í stjórnarskrá og stöðu framkvæmdarvalds í stjórnarskrá.

Ég hef sagt að ég telji þessa vinnu hafa gengið vel. Opinber umræða að undanförnu hefur kannski fyrst og fremst snúist um bókanir einstakra nefndarmanna, um sýn þeirra og skoðanir á stjórnarskránni, og telst mér raunar til að nánast allir formenn hafi ýmist bókað eða tekið undir bókanir annarra á nýliðnum fundum. En vinnan snýst minnst um þessar bókanir.

Ég legg á það mjög mikla áherslu að við sem sitjum við þetta borð, formenn og fulltrúar stjórnmálaflokka á Alþingi, tökum þátt í þessari vinnu af fullri alvöru, skilum af okkur góðum tillögum um góðar breytingar á stjórnarskrá, og að um þær verði haft samráð við almenning en ekki endilega sama samráðið um ólíkar tillögur. Ýmist munum við nýta samráðsgáttina, við getum efnt til rökræðukannana og við höfum rætt um að gera skoðanakannanir. Það er mikilvægt að við nýtum kjörtímabilið allt til starfans því að sagan sýnir okkur að hætt er við því að stjórnarskrárbreytingar eða tillögur að þeim sem kastað er inn í umræðuna á Alþingi á síðustu vikum fyrir kosningar nái ekki fram að ganga, m.a. vegna ágreinings um óskyld málefni.

Það er í raun ekkert sem stoppar mig í því að leggja bara fram mínar eigin tillögur um stjórnarskrárbreytingar. Auðvitað er ekkert útilokað að ég geri það ef ekki næst góð samstaða um breytingar á stjórnarskrá en það er mín einlæga sannfæring að þessar breytingar verði betri ef við ræðum þær sameiginlega og vinnum sameiginlega að þeim þótt við höfum öll ólíka sýn á hversu miklu eigi að breyta og hvernig eigi að breyta.

Ég tel ekki að sú stjórnarskrárumræða skili miklum árangri sem föst er í skotgröfum þar sem ýmist á engu að breyta og gildandi stjórnarskrá er heilagt orð eða sú sýn að þær tillögur sem skilað var á sínum tíma af stjórnlagaráði séu heilagt orð þar sem engu má breyta. Ýmis ákvæði í gildandi stjórnarskrá þarfnast svo sannarlega endurskoðunar. Tillögur stjórnlagaráðs eru mismikið reifaðar í samfélaginu og mismikið ígrundaðar.

Það skiptir hins vegar máli að við tökum mark á því sem spurt var um í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012, þ.e. hvort almenningur vildi byggja á þeim drögum sem stjórnlagaráð hafði skilað. Það skiptir máli að við höfum þær tillögur til hliðsjónar. En ég vil segja það hér að ég tel að stjórnmálin skuldi almenningi að gera breytingar á stjórnarskrá og hafi þar til hliðsjónar vinnu undanfarinna ára. En til þess að þær breytingar gangi í gegn þarf Alþingi Íslendinga að samþykkja þær.

Þess vegna skiptir raunverulegu máli að ná sem breiðastri samstöðu um slíkar breytingar. Það sem skipta mun almenning hér á landi mestu í þessu máli eru raunverulegar breytingar til framtíðar en ekki upphrópanir nútíðarinnar. Raunverulegar breytingar í þágu (Forseti hringir.) bæði almennings og umhverfis eru löngu tímabærar.

Á þessu ári, þar sem við fögnum 75 ára afmæli lýðveldisins og gildandi stjórnarskrár, held ég að við höfum mikil tækifæri til að sýna fram á að stjórnmálin eru reiðubúin til að gera sitt í þessu mikilvæga máli.