149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:33]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka aftur. Ég hefði gjarnan viljað halda áfram að ræða húsnæðismálin en það er líka ágætt að ræða aðeins um bankasölu. Í stjórnarsáttmála kemur fram það markmið að eðlilegt sé að stefnt skuli að því að draga úr eignarhlut ríkisins í bönkum, enda á íslenska ríkið stærri hlut í innlendu fjármálakerfi en tíðkast annars staðar í Evrópu. Hins vegar er það ekki svo að slík sala sé fyrirhuguð í dag eða á morgun. Það sem fyrir liggur er að ráðist var í gerð hvítbókar um fjármálakerfið. Þar eru lagðar til ákveðnar tillögur um það hvernig við getum bætt laga- og regluverk fjármálakerfisins, sem auðvitað hefur tekið stórfelldum breytingum á undanförnum árum, tillögur sem ég tel rétt og mikilvægt að verði hrundið í framkvæmd.

Ég vil nefna varnarlínu milli fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi sem er eitt af því sem ég hef lagt mikla áherslu á. Það eru aðrar tillögur sem þarf að vinna að, t.d. hvað varðar aukið samstarf fjármálafyrirtækja á sviði upplýsingatækni í gerbreyttum heimi. Hins vegar er það ekkert launungarmál að það er síðan í kjölfar þess að við höfum (Forseti hringir.) gert þær breytingar sem Alþingi telur nauðsynlegar á regluverki fjármálamarkaðar að stefnt er að því að losa að einhverju leyti um eignarhlut ríkisins í (Forseti hringir.) fjármálakerfinu eins og kemur mjög skýrt fram í stjórnarsáttmála. Ég hef sagt sjálf að ég telji eðlilegt að byrja á Íslandsbanka.