149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Ég tók eftir því að þegar hún ræddi samráð við verkalýðshreyfinguna minntist hún ekki á eitt atriði sem ákveðinn hluti verkalýðshreyfingarinnar, og kannski sá ferskasti, hefur talað mjög fyrir, þ.e. vaxtaokur og afnám á vísitölu eða breytingu á vísitölugrunni í verðtryggðum lánum almennings. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi ekki komið til umræðu vegna þess að samþykkt var á þingi í fyrra sárameinlaus tillaga um að málið yrði skoðað og átti að koma svar fyrir 1. desember sl. Annaðhvort hefur svarið farið fram hjá mér eða það hefur ekki komið fram. Mig langar því að spyrja ráðherra hæstv. hvort málið hafi ekki komið til umræðu á hinum svokölluðu samráðsfundum og hvort kannski sé ekki ætlunin að taka það upp á þeim vettvangi.