149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:42]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir greinargóð svör. Mér hefur fundist viðkvæðið hjá þessari ríkisstjórn, það sem af er kjörtímabilinu, vera framtíðin. Það er í sjálfu sér mjög ánægjulegt og vonandi sjáum við fram á að langtímahugsun komi í meira mæli inn í þingið.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er undurfallegt ákvæði um málskotsrétt þjóðarinnar. Þar segir að tíu af hundraði geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Það er, eins og hæstv. forsætisráðherra segir, framtíðarmál að ný stjórnarskrá verði sett á koppinn, það er raunsætt mat að einhver tími sé í það. Hæstv. forsætisráðherra sagði áðan að henni væri í sjálfsvald sett að setja ýmis ákvæði inn ef hún liti svo á að það væri þjóðinni til haga. Þess vegna langar mig til að spyrja út í beint lýðræði eins og áðurnefnt ákvæði og þá í tengslum við traust. Hæstv. forsætisráðherra hefur lagt mikla áherslu á traust í stjórnmálum. (Forseti hringir.) Ég lít svo á að slíkt ákvæði myndi auka traust á stjórnmálum og mögulega færa meiri ró inn í stjórnmálin.