149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:52]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Nú er það svo, eins og kom fram í ræðu minni, að þeim breytingum sem við munum leggja til á skattkerfinu er ætlað að koma til móts við þá sem hafa lægri tekjur, lægri millitekjur. Hv. þingmaður spyr um persónuafsláttinn. Ég vil bara segja að mér finnst mikilvægt að við horfum heildstætt á skattkerfið þannig að við náum þeim árangri að skila ágóðanum til þessara hópa. Það er í raun markmið vinnunnar. Þar er hægt að fara ýmsar ólíkar leiðir en þetta er markmið vinnunnar. Það skiptir auðvitað máli fyrir alla sem eru í þessum tekjuhópum að skattkerfið komi til móts við þá.

Hvað varðar þá spurningu hv. þingmanns hvað það kostar að lifa hefur auðvitað verið gerð atlaga að svari við því í gegnum framfærsluviðmið velferðarráðuneytisins, þ.e. framfærslu- og neysluviðmið. Það er auðvitað ekki nákvæmlega það sama og að greina hvar við getum síðan skilgreint fátæktarmörk sem er eiginlega önnur umræða. Neysluviðmiðin miðast við tiltekna þætti, en síðan höfum við rannsóknir sem sýna að of margir búa við fátækt. Við þekkjum t.d. skýrslu um fátækt barna svo að ég nefni hana.