149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:05]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú loksins er ég búinn að átta mig á því hvernig hugtakið „góða fólkið“ varð til. Hérna er til fólk sem vill jöfnuð sem mestan og svo erum við hin, væntanlega í Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og VG, sem teljum réttlæti ekki skipta neinu máli. Til er fólk sem er líka gott, sem vill samstarf, sem elskar aðra, en svo erum það við hin sem viljum bara einangrun og ótta.

Þetta er alveg ótrúleg einföldun og ótrúleg pólitísk greining, hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson. Svo eru allir á heljarþröm, allar stofnanir, einstaklingar og launamenn, þrátt fyrir að sjálfsagt hafi engin þeirra stofnana haft meiri fjárráð til að reyna að sinna sínum verkefnum en nú. Launafólk hefur aldrei staðið betur og jöfnuður aldrei verið meiri.

Þessi ræða, hv. þingmaður, var mjög sérkennileg. Ég fullyrði að þeir sem hafa efasemdir um að ganga inn í fámennt bandalag sem heitir Evrópusambandið eru ekki á móti alþjóðlegu samstarfi eða fólki frá öðrum löndum. Heimurinn er miklu stærri en Evrópa og örfá Evrópulönd.

Ég vil líka mótmæla tilvísunum hv. þingmanns í fyrirsagnir í blöðum sem eru auðvitað handvaldar eftir hentugleika. Þær lýsa ekki raunveruleikanum í íslensku samfélagi. Margt má betur gera og að mörgu er unnið en þetta eru hreinar (Forseti hringir.) og beinar rangfærslur.