149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:15]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að mér sé alveg óhætt að tala fyrir hönd Samfylkingarþingmanna þegar ég segi að ég gleðst yfir öllum þeim framlögum til samneyslunnar sem koma. Og ég gleðst alveg sérstaklega yfir öllum framlögum til umhverfismála og náttúruverndar þó að mér finnist að sjálfsögðu að þar sé hægt að gera betur.

Þegar ég var að búa mig undir að flytja þessa ræðu las ég grein eftir Stefán Ólafsson, sem er prófessor við Háskóla Íslands og hefur, held ég, að öðrum ólöstuðum rannsakað manna best lífskjör á Íslandi. Þessi grein birtist í Kjarnanum núna 8. janúar og Stefán Ólafsson segir, með leyfi forseta:

„Skattbyrði láglaunafjölskyldna hefur aukist meira hér en í nokkru öðru vestrænu OECD-ríki á síðustu tveimur áratugum.“

Það er enn þá svo að barnafólk á höfuðborgarsvæðinu hefur dottið út úr þessu vaxtabótakerfi og fær ekki nægar vaxtabætur til að losna undan heljarþröminni.