149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:20]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna. Ekki ætla ég að fara að gefa ræðunni einkunn en mér fannst nokkuð skemmtileg framsetning á henni þótt ég væri ekki sammála innihaldi hennar. Mér fannst þingmaðurinn varpa fram svart/hvítri mynd af tilverunni sem sýnir okkur að við lítum misjöfnum augum á hlutina, það fer eftir því hvaða sjónarhorn við höfum. Þingmaðurinn hefur greinilega oft önnur gleraugu en ég, sem eðlilegt er því að ekki getum við notast við sömu gleraugu.

Ég sé ekki annað en að Ísland sé ítrekað í efstu sætum á heimsvísu þegar talað er um jöfnuð lífsgæða, félagslegan jöfnuð, efnahagslegan jöfnuð og jafnrétti almennt. Horft er til okkar í þeim efnum. Hvernig má það vera, vil ég spyrja þingmanninn, að við erum ítrekað að keppa um gull, silfur eða brons? Þingmaðurinn líkti okkur hérna við kappleik, setti það fram þannig. Hvernig má það vera að við séum ítrekað í því sæti? Ef sýn þingmannsins er þessi, sér hann ekkert út úr henni? Getur það verið röng sýn að við séum á réttri leið? Ríkisstjórnin sem nú situr hefur verið hér í rúmt ár. Þetta er ríkisstjórn innviðauppbyggingar og uppbyggingar í samfélaginu og hún er að leggja grunninn að enn þá betra samfélagi en við búum í núna. Getur þingmaðurinn ekki séð þetta með þeim augum að hér sé margt harla gott þótt ýmislegt megi vissulega betra vera?