149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:37]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var víða farið í ræðu hv. þingmanns. Ég ætla að staldra aðeins við það sem hv. þingmaður sagði um heilbrigðiskerfið og uppbyggingu þess. Þingmaðurinn talaði um að stefnt væri að því að setja upp það sem hann kallaði marxískt heilbrigðiskerfi á Íslandi. Í mínum huga er þetta náttúrlega ekkert nema orðhengilsháttur og hér er verið að velja heiti sem hljóma nógu dramatísk í eyrum áheyrenda án þess að neitt innihald liggi á bak við það. Þeim sem á heyra er eftirlátið að sjá í huga sínum stærstu hryllingsmyndir sem þeim gætu dottið í hug í þessu samhengi.

Hv. þingmaður skuldar þingheimi að útskýra í smáatriðum hvar þessa sér stað í heilbrigðiskerfinu okkar núna. Er það marxískt heilbrigðiskerfi að fella niður komugjöld fyrir aldraða og öryrkja? Er það marxískt heilbrigðiskerfi að auka kostnaðarþátttöku ríkisins í tannlækningum aldraðra og öryrkja? Og svo mætti lengi telja.

Hv. þingmaður getur ekki komið hingað upp með orðaleppa um tiltekin mál í þeim tilgangi einum að slá dulu yfir umræðuna án þess að neitt annað sé á bak við.