149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:41]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að geta þess að ég hafði aldrei þau orð hér í ræðustóli að marxísk stefna væri endilega vond eða góð eða betri en annað. Það sem ég sagði hins vegar er að þingmaðurinn velur orðalepp. Hann velur orðalepp án þess að skýra með nokkru móti hvað hann á við. Síðan kemur hv. þingmaður hér og sakar hæstv. heilbrigðisráðherra um að vera á móti öllum læknum sem starfa utan Landspítalans. (Gripið fram í.) Það er alveg ótrúlegt að halda þessu fram á sama tíma og hv. þingmaður veit fullvel að nýlega voru samþykkt fjárlög þar sem samþykktar voru fullar fjárheimildir til að greiða fyrir þjónustu þessara sömu lækna. (Gripið fram í.) Þingmaðurinn heldur því áfram fram að í gangi sé eitthvert stríð í heilbrigðiskerfinu. Það er alrangt.

Það er hins vegar fullkomlega eðlilegt, og ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála um það, að heilbrigðisráðuneytið reyni með sínum undirstofnunum að gera einhvers konar kostnaðar- og þarfagreiningu á því hvaða þjónustu á að kaupa og til hverra á að leita með það. Og ef það er hagkvæmara að sinna læknisþjónustunni hjá stofnunum ríkisins, er þá ekki langeðlilegast að gera það með þeim starfsmönnum sem ríkið hefur þegar í vinnu? Er skynsamlegra að leita út fyrir stofnanir þegar ríkið er raunverulega þegar með þær í sinni þjónustu og fullt af starfsmönnum?