149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Er skynsamlegra að leita út fyrir stofnanirnar þegar ríkið er hvort eð er með þær og alla þessa starfsmenn? Þannig spyr hv. þingmaður. Á sama tíma lýsir Landspítalinn yfir neyðarástandi af því að hann ræður ekki við ástandið. Og hvað verður þá um þá sjúklinga sem fá ekki hjálp þar? Þeir geta leitað til útlanda og hæstv. ráðherra er frekar tilbúin að borga þrefalt fyrir það en að semja við sérfræðilækna á Íslandi eða greiða fyrir starfsemi sem er þó sambærileg og sams konar og verið er að borga fyrir í útlöndum. Nú eru 400 manns eða þar um bil sem ættu rétt á því að fara til útlanda á morgun og láta ríkið borga fyrir sig þjónustu þar; það myndi kosta um 2 milljarða, vel á annan milljarð, en hægt væri að fá þá sömu þjónustu hér á Íslandi fyrir 480 milljónir. Á sama tíma leyfir hv. þingmaður sér að halda því fram að menn séu að greina hlutina og skoða hvað sé hagkvæmast o.s.frv. en ætlar engu að síður að halda áfram að senda fólk til útlanda í dýrari aðgerðir á einkastofum þar á meðan verið er að sauma að slíkri starfsemi hér á landi.

Þetta, virðulegur forseti, kalla ég marxískt heilbrigðiskerfi.