149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:45]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég hjó eftir því að honum varð tíðrætt um samgönguáætlun. Hann lýsti því hér yfir, að vísu mér til ánægju, að hann væri ekki fylgjandi auknum álögum til að fjármagna það sem við teljum nauðsynlegar framkvæmdir í vegamálum. Þá spyr ég hv. þingmann: Hvernig ætlar hann að gera þetta? Ef álögur eiga ekki að aukast, hvernig á að fjármagna það átak sem við stöndum frammi fyrir? Með hvaða hætti telur þingmaðurinn eðlilegt og sanngjarnt að gera það? Sér hv. þingmaður fyrir sér einhverjar nýjar tekjur sem teljast þá ekki til aukinna álagna? Eða hvernig vill þingmaðurinn gera þetta?

Ég hjó eftir öðru atriði sem hv. þingmaður verður að skýra aðeins út fyrir mér. Hann telur að ekki sé nóg að gert í málefnum aldraðra, þ.e. þegar kemur að lífeyrisgreiðslum aldraðra. Við getum svo sem verið sammála um það. En það breytir ekki hinu að við erum samt sem áður að tala um að raunaukning til málefna aldraðra er um 150% frá árinu 2010, það eru 50 milljarðar eða svo. Mér fannst þingmaðurinn gefa til kynna að hann líti þannig á að tryggingakerfið okkar, almannatryggingakerfið, sé réttindakerfi en ekki tryggingakerfi. Ég bið hv. þingmann að skýra það aðeins út fyrir mér hvort það geti verið að hann líti þannig á að almannatryggingar séu réttindakerfi en ekki (Forseti hringir.) tryggingakerfi sem við höfum komið á fót til að grípa þá sem þurfa á aðstoð að halda.