149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:50]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég skildi það svar hans ekki alveg þegar kom að fjármögnun vegaframkvæmda. Er hv. þingmaður að tala um að það sé í lagi að hækka gjöld, leggja á veggjöld — ef hægt sé að draga frá skaðann sem menn verða fyrir vegna ástands vega líti hann svo á að ekki sé um auknar álögur að ræða? Ég skildi hv. þingmann þannig, að hann sé þá fylgjandi því að leggja auknar álögur á umferðina. Hann segir: Ja, það er réttlætanlegt vegna þess að við verðum fyrir ákveðnum skaða vegna slysa o.s.frv.

Og að hinu atriðinu: Ef hv. þingmaður lítur þannig á að almannatryggingar, Tryggingastofnun, séu réttindakerfi er hann um leið að segja að það sé eðlilegt og sanngjarnt að allir fái greitt úr almannatryggingum. Þar með skulu þeir sem best standa og njóta bestu lífeyrisréttinda — sumir eru með á aðra milljón eða jafnvel meira — fá sínar 300.000 kr. eða hvaða fjárhæð það er sem við ákveðum að skuli vera lágmarksgreiðsla úr almannatryggingakerfinu. Ef hv. þingmaður er að boða það getum við illa orðið samferða í framtíðinni. Það er grundvallaratriði, þegar kemur að almannatryggingum, að við tryggjum að til staðar sé öryggisnet sem grípi þá sem þurfa á aðstoð að halda, að við beinum takmörkuðum fjármunum okkar í þá átt en leggjum ekki álögur á ungt fólk (Forseti hringir.) til að greiða þeim sem best standa úr því kerfi, þeim sem sumir myndu segja, hv. þingmaður, að væru á okurlífeyrisréttindum.