Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:52]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég minni hv. þingmann á áhersluna sem ég lagði á að menn litu á heildarmyndina og langtímaáhrifin. Ef við teljum að slys hafi verulegan kostnað í för með sér fyrir samfélagið hljótum við að gera ráð fyrir því að ef menn ráðast í úrbætur verði kostnaðurinn, útgjöldin í framtíðinni, fyrir vikið minni; að með þeim hætti sé hægt að meta hvaða framkvæmdir séu mest aðkallandi og til þess fallnar, ekki bara að auka útgjöld heldur að auka sparnað í framtíðinni.

Það sama má segja að eigi við varðandi lífeyrisumræðuna. Þar þurfum við að líta meira á heildarmyndina og langtímaáhrifin. Þar er ég sérstaklega að tala um skerðingar vegna atvinnutekna sem hafa í för með sér að vinna sem ella væri unnin, framleiðsla sem ella yrði til, skatttekjur sem ella mundu skila sér, er ekki unnin og skilar sér ekki vegna þess að hvatinn sem ríkið sendir út, eins ósanngjarn og hann er, er sá að þú hafir ekkert upp úr því að vinna þegar þú ert kominn á ákveðinn aldur. Þá verðurðu bara skertur að fullu eða því sem næst og þar af leiðandi eigirðu bara að ljúka störfum og hætta að framleiða þau verðmæti sem þú hefur aflað þér reynslu og þekkingar í að framleiða jafnvel um áratugaskeið.

Það er mjög undarlegt að heyra nálgun margra Sjálfstæðismanna á lífeyriskerfið. Þess vegna kallaði ég sérstaklega eftir meiri umræðu um það hér áðan. Ekki er annað að heyra þar en að þegar menn borgi í lífeyrissjóði sé eins og menn séu að borga hverja aðra skatta, rétt eins og skattar sem renna í velferðarkerfið að öðru leyti, í almannatryggingar að öðru leyti. Ég efast um að stór hluti þess fólks sem í hverjum mánuði sér háa greiðslu í sinn lífeyrissjóð á launaseðlinum átti sig á því að þetta sé viðhorf Sjálfstæðismanna.