149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:08]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að byrja á að biðjast velvirðingar á að ég fór með smáfleipur í ræðustól áðan. Það var að sjálfsögðu hæstv. forsætisráðherra sem opnaði gagnagrunninn en ekki hæstv. fjármálaráðherra. Rétt skal vera rétt hvað það varðar.

Það má alveg hrósa þeim gagnagrunni því að þetta er sannarlega mikilvægt gagn í umræðu um tekjur og stöðu ólíkra hópa í landinu. Við eigum einmitt að nýta þann gagnagrunn vel í að bæta stöðu þeirra verst settu og hjálpa þeim sem hafa staðið í stað, eins og gagnagrunnurinn sýnir svo sannarlega.

Í síðara andsvari mínu var tvennt sem mig langar örstutt að koma inn á. Það er annars vegar með stöðu nýsköpunar sem er, held ég, gríðarlega mikilvæg, ekki bara í ljósi nýsköpunar í atvinnulífi heldur líka samfélagslegrar nýsköpunar stofnana og fleira slíks og sérstaklega í ljósi þeirrar raunverulegu hættu sem við stöndum frammi fyrir núna í loftslagsbreytingum. Ég held að við sjálf, sú kynslóð sem er núna, þurfum að breyta okkur. Við getum ekki beðið eftir börnunum okkar.

Hluti af því er einmitt að auka jöfnuð í samfélaginu og sömuleiðis að minnka og breyta neysluháttum samfélagsins.

Mér þætti áhugavert að fá smásamtal við hæstv. ráðherra um hvort hún sjái fyrir sér að við gætum gert enn meira í loftslagsmálum. Er Sjálfstæðisflokkurinn t.d. tilbúinn til að skoða aukna hvata og reyna að hafa þannig áhrif á neyslumynstur Íslendinga? Sömuleiðis langar mig að forvitnast um stöðu nýsköpunar í ljósi stöðu krónunnar sem hefur verið kvartað sáran undan. Væri ekki spurning um að fara að skoða annan gjaldmiðil?