149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:10]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessar laufléttu spurningar, fyrir eina mínútu og 55 sekúndur.

Fyrst aðeins um gjaldmiðilinn. Það er alveg hárrétt, ég heyri það mikið þegar ég hitti fólk í alls konar nýsköpunarfyrirtækjum að margir í þeim hópi vilja gjarnan hafa annan gjaldmiðil. Hins vegar er það ekki skammstöfun gjaldmiðilsins sem veldur sveiflum á virði hans. Það eru sveiflur í efnahag og í stjórnmálum, óvissa og pólitísk óvissa. Ef fólk vill stöðugri gjaldmiðil verður það — og þeir sem það kýs — að viðhalda stöðugleika.

Það er t.d. gert með opnum alþjóðlegum viðskiptum og aukinni framlegð. Festa í ríkisrekstri og fyrirsjáanlegar reglur eru það sem við þurfum og getum komið á.

Hvað varðar nýsköpunarmálin almennt er vinna í gangi og ég bind miklar vonir við hana. Og það er líka kannski svo sem ákveðin nýsköpun í þeirri vinnu.

Varðandi loftslagsmálin, nýsköpun og það sem hv. þingmaður nefndi — af því að hv. þingmaður er sérstakur áhugamaður um orkumál og nefndi þau í fyrri ræðu — sé ég líka að loftslagsmál, orkumál og nýsköpun eru þríhyrningur sem er ekki hægt að toga í sundur. Við erum náttúrlega í algerri lykilstöðu hvað það varðar. Ákveðin samvinna um orkumál opnar líka á tækifæri í þá veru.

Varðandi það hvort við sem stjórnmálamenn getum gert meira í loftslagsmálum held ég að það sé alveg klárt. Við erum auðvitað að gera margt og í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar eru ýmis verkefni.

Ég verð að fá að nefna í lokin að mér fannst sérstaklega áhugavert þegar ég las um daginn að samkvæmt skoðanakönnun Gallups telur fólk að stjórnvöld séu að bregðast í þessari vinnu. Ég er ekki að gera lítið úr því, en ég væri samt til í að segja líka á móti við hvern og einn sem býr í landinu, og mig þar með talda: Erum við hvert og eitt að gera allt sem við getum til að mæta þessum áskorunum? Ef hver og einn gerir það náum við (Forseti hringir.) líka mjög miklum árangri. Það er ekki þannig að stjórnvöld eigi að leysa allt og það er ekki þannig að hægt sé að gera stefnur og aðgerðaáætlanir ef fólkið í landinu fylgir því síðan ekki eftir. Þess vegna hef ég líka fagnað mjög frumkvæði frá atvinnulífinu í þessum málum.