149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:18]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að ítreka fyrri spurningu mína: Nýtur þriðji orkupakkinn og innleiðing hans stuðnings flokks hæstv. ráðherra? Mér fannst ekki koma skýrt svar fram við því. Nýtur innleiðing þriðja orkupakkans stuðnings ríkisstjórnarinnar? Það hlýtur vissulega að vera mjög alvarlegt mál, og nokkuð sem hver ríkisstjórn tæki varla af neinni léttúð, að stefna samningi um Evrópska efnahagssvæðið í uppnám með þeim hætti sem yrði ef innleiðingin næði ekki fram að ganga.

Ég hugðist spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í gjaldmiðilinn okkar í ljósi óljósrar stöðu sprotafyrirtækja og ferðaþjónustu. En þar sem ég fékk raunar heldur ekki skýrt svar við skattamálunum hlýt ég að spyrja aftur. Hér er um auknar álögur að ræða. Það er verið að tala um veggjöld til viðbótar við þá gjaldtöku sem þegar er á umferð. Þetta er ekki breyting á gjaldtöku á umferð. Þetta eru viðbótarálögur (Forseti hringir.) og hljóta að teljast skattahækkanir.

Í ljósi þess að við vitum að okkar bíður endurskoðun á gjaldtökukerfi á umferð en við erum einfaldlega ekki komi að henni enn spyr ég: Njóta þessar skattahækkanir stuðnings Sjálfstæðisflokksins?