149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:21]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski rétt að byrja á því að leiðrétta það sem hæstv. ráðherra sagði rétt í þessu, að ekki hafi verið lokið við veggjöld fyrir jól vegna þess að útfærslu var ekki lokið. Réttara er að segja að minni hlutinn tók það ekki í mál og það var samningsatriði.

En ýmislegt má segja um ræðu hæstv. ráðherra. Sumt var gott og annað verra. Ég er til að mynda mjög sammála því sem hún sagði um ágæti EES-samningsins og mikilvægi hans. Mér þykir þó svolítið skrýtið að verið sé að tala fyrir lækkun skulda fyrst og fremst þegar við erum í hópi hlutfallslega minnst skuldsettu ríkja heims í stað þess að tala fyrir lækkun vaxta á ríkisskuldum þegar við erum í hópi þeirra ríkja sem hafa hvað mesta vaxtabyrði á ríkisskuldum.

En frekar en að karpa um það tiltekna atriði langar mig til að ræða við hæstv. iðnaðarráðherra um stöðu atvinnuvega landsins. Eins og við þekkjum er mjög erfitt að stofna og reka fyrirtæki á Íslandi. Rekstrarumhverfið er mjög erfitt. Margir hafa kvartað yfir því og munu líklega gera áfram þar til það er lagað.

Spurningin er: Sér ráðherra í hendi sér einhverja leið til þess að búa betur um fyrirtækin í landinu? Þá er ég fyrst og fremst að hugsa til þeirra fyrirtækja sem eru í nýsköpun, sem stunda rannsóknir og þróun. Þar gæti markmiðið verið að minnka ýmiss konar kostnað, t.d. með því að lækka skráningargjöld fyrirtækja niður í raunkostnað við skráningu, eins og gert er ráð fyrir, og auka aðgengi að lánsfé á lágum vöxtum og þar fram eftir götunum.

Það er náttúrlega ágætt sem gert var í haust, að tvöfalda endurgreiðsluþakið vegna rannsókna og þróunar, en það var bara ein hindrun af svo ótrúlega mörgum þegar litið er til rekstrarumhverfis hér á landi miðað við rekstrarumhverfi fyrirtækja í helstu samkeppnislöndum okkar. Ég væri rosalega til í að sjá einhverja góða lausn á þeim málum á komandi mánuðum.