149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:41]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er ljómandi gott að við þingmaðurinn erum sammála um að það eigi auðvitað að byggja á niðurstöðum stjórnlagaráðs og við erum líka sammála um að þetta þurfi að vera heildstæð vinna. Við erum sammála um það. En þá kemur þetta vandamál sem við komumst einhvern veginn aldrei fram úr, hvort sem við hv. þingmaður erum sammála um það eða ekki að þetta sé kannski meira ákvörðunarefni þjóðarinnar en okkar hér inni, að það gerist náttúrlega ekkert nema málið komist héðan út. Það gerist ekkert í málefni stjórnarskrárinnar nema það sé með einhverjum hætti afgreitt af þingi og þingið nái einhverri niðurstöðu í málið.

Ég veit það jafn vel og hv. þingmaður að ef ekki er umtalsverð sátt í þessum sal um tiltekin mál fara þau ekki svo glatt hér í gegn, sérstaklega ekki grundvallarmál eins og þetta. Um þau þarf að vera meiri sátt en önnur, þess vegna er kannski ekki skrýtið að það hafi gengið erfiðlega að breyta stjórnarskránni. Vandi okkar liggur kannski í því að einhverju leyti að ferlið að breyta stjórnarskránni er svo seigfljótandi að það er erfitt. Þess vegna er kannski mikilvægt að við í þessari umferð tökum á þeim vanda, þ.e. að við breytum (Forseti hringir.) breytingaferlinu sem hluta af þessari heildstæðu endurskoðun.