149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:49]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að biðja hv. þingmann afsökunar ef ég hef misskilið þetta um unga fólkið. Hv. þingmaður sagði enn fremur að hér yrði ekkert samfélag til að taka við ef fram héldi sem horfði. Það er þungur áfellisdómur yfir íslensku samfélagi. Ég deili honum ekki.

Varðandi stjórnarskrána snýst það ekki um hversu margir mættu á kjörstað. Það snýst um hversu margir greiddu atkvæði fullbúinni stjórnarskrá og hversu margir af þeim, sem voru reyndar vissulega ekki nema rétt rúmlega þriðjungur þjóðarinnar, greiddu atkvæði um vinnuplagg. Að skilja orðin að leggja til grundvallar stjórnarskrá er ekki stjórnarskráin sjálf. Það er mjög langt teygt að túlka það svo að þessi 37% þjóðarinnar hafi verið að samþykkja stjórnarskrána. Ég gerði það t.d. ekki með mínu atkvæði. Ég samþykkti að þarna væri komið gott vinnuplagg til að styðjast við í áframhaldandi vinnu og ég fullyrði að mjög margir af þeim sem greiddu atkvæði hafi nákvæmlega verið að gera það. Auðvitað er það ekki góð latína þegar verið er að samþykkja stjórnarskrá að einungis 37% geri það, 75.000 manns af yfir 200.000. Hvar myndi það gerast ef þetta væri raunveruleg þjóðaratkvæðagreiðsla um raunverulega fullbúna stjórnarskrá? Þetta var vissulega ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla og verið var að greiða atkvæði um vinnuplagg, jafn gott og það kann að vera. Þetta er ekki valdarán og þó að liðið hafi 2.000 og eitthvað dagar frá því að þetta var gert er það bara vegna óeiningar um plaggið sjálft, ekki vegna þess að stjórnvöld hafi rænt völdum á Íslandi, eins og þessi ágæti háskólaprófessor hefur sagt.