149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:52]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara yfir nokkur mál í þessari umræðu í dag og byrja á að fjalla um samgöngur. Markmið með metnaðarfullri samgönguáætlun verður ekki mælt í kílómetrum heldur mannslífum og lífsgæðum. Til að stuðla að fækkun slysa og auka umferðaröryggi er áhrifaríkast af ýmsum leiðum að endurbæta vegakerfið sem lætur víða á sjá í kjölfar aukinnar umferðar og þungaflutninga, m.a. vegna fjölgunar erlendra ferðamanna. Sambærileg framlög á undanförnum árum mæta engan veginn uppsafnaðri þörf til að breikka og tvöfalda vegi til að mæta aukinni umferð og tekjur af ökutækjum og eldsneyti renna að langstærstum hluta til vegagerðar, en spár gera ráð fyrir að með aukinni nýtingu annarra orkugjafa muni þær minnka á næstu árum. Þess vegna er horft til þess að ný leið í fjármögnun sé að fólk greiði í vaxandi mæli fyrir notkun sína með beinum hætti.

Samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 var lögð fyrir Alþingi í september og mælt fyrir henni og aðgerðaáætlun í október. Þar var kynnt að ríkisframlög til samgangna yrðu rúmlega 600 milljarðar á 15 ára tímabili, en jafnframt gert ráð fyrir öðrum leiðum, þær fjármögnunarleiðir yrðu kynntar síðar. Ég hef sagt að gjaldtaka vegna brýnna samgönguverkefna í þágu umferðaröryggis væri ein þeirra leiða sem skoðuð yrði. Ég vitna í framsöguræðu mína fyrir samgönguáætlun, með leyfi forseta:

„Samþykki Alþingi að ráðast í nýjar fjármögnunarleiðir verður hægt að hraða mikilvægum vega- og jarðgangaframkvæmdum í áætluninni.“

Þrír starfshópar hafa starfað í umboði ráðherra samhliða vinnu við samgönguáætlun, einn um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu, annar um eflingu innanlandsflugs og uppbyggingu flugvallakerfisins á Íslandi og þriðji starfshópurinn var skipaður til að leggja fram tillögu sem miðaði að því að hraða einstökum framkvæmdum sem eru nú í tillögu að samgönguáætlun með því að nýta nýjar fjármögnunarleiðir að hluta eða öllu leyti. Einnig var starfshópnum falið að móta tillögur um fjármögnun vegakerfisins til lengri tíma vegna orkuskipta og það er hluti af þeim loftslagsaðgerðum sem við í ríkisstjórninni erum að grípa til. Sá hópur hefur það hlutverk að stilla upp tillögum fyrir gjaldtöku fyrir afnot af einstökum mannvirkjum, útfærslu þeirra og mat á tekjum í samvinnu við Vegagerðina.

Vinna þessara þriggja hópa hefur verið kynnt fyrir umhverfis- og samgöngunefnd og hefur nefndin verið að fjalla um tillögur þeirra. Starfshópurinn um fjármögnun samgöngukerfisins er enn að störfum og þarf meiri tíma til að útfæra tillögurnar betur en þó liggur ýmislegt fyrir. Veggjöld verða t.d. ekki innheimt fyrr en að loknum framkvæmdum einstakra mannvirkja, sem yrði í fyrsta lagi eftir fáein ár þegar slíkum stórframkvæmdum myndi ljúka. Markmið með nýjum fjármögnunarleiðum í samgöngum, veggjöldum, flýtigjöldum eða hvað við viljum kalla það væri að stórauka öryggi í umferð á vegum landsins, flýta framkvæmdum, stytta vegalengdir á milli byggða, efla almenningssamgöngur og styrkja atvinnusvæði í landinu.

Við höfum jafnframt verið að vinna að framkvæmd byggðaáætlunar sem var samþykkt á síðasta ári. Unnið er hörðum höndum að því að hrinda henni í framkvæmd. Það er metnaðarfull áætlun sem felur í sér 54 tilgreindar aðgerðir sem nær öll ráðuneyti bera ábyrgð á og koma við sögu en mjög margir framkvæmdaraðilar koma þar einnig að.

Margar aðgerðir eru þegar komnar í framkvæmd og unnið er að því að koma öðrum á framkvæmdastig. Til að mynda var á síðasta ári auglýst eftir umsóknum um styrki vegna þriggja aðgerða, þ.e. sértækra verkefna; sóknaráætlana, fjarvinnslustöðva og verslunar í strjálbýli. Alls var úthlutað um 160 millj. kr. til 19 verkefna á grundvelli aðgerðanna þriggja og þegar er búið að auglýsa styrki vegna þessa árs en sérhæfð valnefnd kemur með tillögu til ráðherra um hvaða verkefni beri að styrkja.

Unnið er að skipulagðri framkvæmd annarra aðgerða, svo sem stuðningi við Brothættar byggðir, fjarheilbrigðisþjónustu og Ísland ljóstengt, en 230 milljónir runnu til þessara þriggja verkefna á síðasta ári úr byggðaáætlun.

Þá er rétt að geta þess að nú er orðið lögbundið að taka saman í eina áætlun stefnumörkun ríkisins í málefnum sveitarfélaga og meðal atriða sem ráðið þar þarf að taka fyrir eru leiðir til að efla og styrkja sveitarstjórnarstigið, m.a. með sameiningum, og einnig hvernig hægt sé að nýta jöfnunarsjóð betur í því skyni.

Þetta eru atriði sem ég kom inn á á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga síðasta haust. Meira en helmingur sveitarfélaga er með færri en 1.000 íbúa, þ.e. 39 af 72, og 25 sveitarfélög, ríflega þriðjungur, hafa færri en 500 íbúa. Verkefnisstjórn um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga, sem skilaði áliti sínu og tillögum á þarsíðasta ári, komst að þeirri niðurstöðu að sveitarfélögin væru of fámenn. Það viðhorf hefur einnig komið fram í samtölum við einstaka sveitarstjórnarmenn og aðra á þeim vettvangi.

Mikill tími og fjármunir fara í rekstur sveitarfélaga og of lítið er aflögu til stefnumótunar og til að móta framtíðarsýn. Það var mat verkefnisstjórnar að núverandi sveitarstjórnarskipan sé að hluta til viðhaldið með samstarfi milli sveitarfélaga, með samningum um samvinnu, byggðasamlögum og vettvangi landshlutasamtaka og að uppbygging núverandi jöfnunarsjóðs komi þar einnig við sögu.

Ég get tekið undir þetta og vil gjarnan sjá breytingar í þessu sambandi, en það verður verkefni stefnuráðsins í sveitarstjórnarmálum að móta í samtali við sveitarstjórnarstigið á næstu mánuðum.

Við sjáum að öllu óbreyttu fram á yfirvofandi skort á kennurum. Ríkisstjórnin hefur einsett sér að styrkja umgjörð í kringum kennara á öllum skólastigum, stuðla að viðurkenningu á störfum þeirra og efla faglegt sjálfstæði. Unnið hefur verið að tillögum af miklum krafti innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins í samstarfi við skólasamfélagið og það styttist í að þeim verði hrint í framkvæmd. Við ætlum að snúa vörn í sókn og byggja upp framúrskarandi menntakerfi. Við sáum jákvæð teikn á lofti sl. haust þegar umsóknum um kennaranám tók að fjölga talsvert, en við þurfum að gera betur. Við erum einnig að efla verk-, iðn- og starfsnám með fjölþættum aðgerðum. Í því felst að styrkja utanumhald með verk- og starfsþjálfun nemenda og auka aðgengi að náminu. Til að mynda voru efnisgjöld felld niður og við erum að fjárfesta í betri aðstöðu og kynna betur þá fjölbreyttu náms- og starfskosti sem í boði eru.

Sú vinna er farin að skila árangri. Til að mynda fjölgaði innrituðum nemendum á verk- og starfsnámsbrautum framhaldsskóla hlutfallslega um 33% milli ára á haustönn. Við ætlum að halda áfram á þeirri braut. Við höfum eflt háskólastigið svo um munar en í ár nema framlög til þess um 47 milljörðum kr., það er hækkun um 2,2 milljarða frá árinu 2018. Við ætlum að halda áfram að fjárfesta í háskólastiginu, efla kennslu og rannsóknir og auka gæði náms. Heildarendurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna gengur vel og verður frumvarp þess efnis lagt fram í haust. Þá hefur ríkisstjórnin sett íslenskuna í öndvegi og nú þegar hafa verið tekin mikilvæg skref í þá átt. Frumvarp um stuðning við útgáfu bóka er orðið að lögum og mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram og mælt fyrir þingsályktunartillögu í 22 liðum um eflingu íslenskunnar, m.a. fjárfestingu í máltækniáætlun þannig að við getum gert íslenskuna gildandi í hinum stafræna heimi framtíðarinnar, einnig að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, uppbyggingu menningarhúsa á Sauðárkróki og Egilsstöðum og efla barnamenningu sérstaklega með nýjum barnamenningarsjóði.

Síðan langar mig að víkja nokkrum orðum að hinu nýja félagsmálaráðuneyti sem tók til starfa 1. janúar við uppskiptingu velferðarráðuneytisins. Þau verkefni sem þar eru í gangi eru margvísleg og sum hver risavaxin. Má nefna vinnu samráðshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga. Kerfinu er ætlað að tryggja hvata til atvinnuþátttöku þar sem aukin áhersla er lögð á snemmtæka íhlutun og starfsendurhæfingu með þverfaglega nálgun að leiðarljósi. Í framhaldinu verða væntanlega gerðar breytingar á örorku- og endurhæfingarlífeyri almannatrygginga í samræmi við tillögur samráðshópsins.

Fyrir þinginu liggur tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar til ársins 2020, sem er metnaðarfullt plagg, og líkt og nýr embættistitill félags- og barnamálaráðherra ber með sér eru málefni barna helsta áherslumál ráðherrans á komandi misserum. Mikil vinna er lögð í að kanna hvernig umhverfi barna er á Íslandi og víðtækt samráð haft við sérfræðinga, alla þingflokka og aðra utanaðkomandi hvað það varðar.

Hvernig getum við bætt íslenskt samfélag börnunum okkar til hagsbóta? Um ofangreint hefur verið undirrituð viljayfirlýsing fimm ráðherra og á grundvelli hennar tekur til starfa í vikunni stýrihópur í málefnum barna sem í eiga sæti fulltrúar forsætisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, dómsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra og er hópnum stýrt af fulltrúa félags- og barnamálaráðherra.

Ýmsir hópar eru að störfum, m.a. hópar sem auka við snemmtæka íhlutun, að starfsemi fíkniúrræða fyrir börn og ungmenni verði efld og fram undan er bygging nýs meðferðarheimilis fyrir börn og ungmenni með fjölþættan vanda og hugmynd að svokölluðu lágþröskuldarúrræði þar sem börn og ungmenni getað leitað án þess að hafa fengið sérstakar tilvísanir í því skyni að grípa fyrr og hraðar inn í.

Þá eru fleiri starfshópar, hópur sem á að útfæra sértækar aðgerðir til að auðvelda ungu og tekjulágu fólki að kaupa sér íbúðarhúsnæði. Þá er við störf starfshópur sem á að leggja fram tillögur að úrbótum, hvort sem er innan fæðingarorlofskerfisins eða með öðrum hætti fyrir barnshafandi konur á landsbyggðinni. Kynntar hafa verið breytingar um hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi. Móttaka flóttafólks hefur verið samræmd, Fjölmenningarsetrið hefur verið eflt og margt fleira.

Það er fleira sem ég vildi nefna. Stóru málin sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir eru kjaraviðræðurnar og húsnæðismálin. Það að létta skattbyrði af lágtekju- og millitekjufólki er eitthvað sem við ætlum að kynna á morgun fyrir aðilum vinnumarkaðarins. Það eru mál er varða verðtrygginguna, húsnæðisliðinn í vísitölunni og fleira sem væri áhugavert að ræða á þessum fundi en tími minn dugir ekki til þess frekar núna.