149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:04]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að útskýra enn og aftur muninn á því að setja upp vegtollahlið, sem ég sagði að við værum á móti og ekki stæði neitt um það í stjórnarsáttmálanum, og þeim leiðum sem við höfum verið að reyna að útfæra og ég skrifaði inn í samgönguáætlun. Ég fór aðeins yfir það í máli mínu, vissulega fullhratt til að koma fleiru að, að í samgönguáætlun hefðum við sagt að áhugavert væri í ljósi þess að mikil þörf er fyrir uppbyggingu á vegakerfinu að skoða aðrar leiðir. Það hefur umhverfis- og samgöngunefnd svo sannarlega verið að gera.

Ég tel mjög mikilvægt og taldi það í desember þegar var verið að fjalla um þessi mál að við myndum leita allra leiða til að ná sem breiðastri sátt um þessa kerfisbreytingu, sem er m.a. sprottin upp úr orkuskiptum, þeirri löngun okkar og þrá til að uppfylla markmið okkar í loftslagsmálum með því m.a. að skipta um orku í bílunum. Það mun þýða að þær tekjur sem við fáum inn í gegnum eldsneytisgjöld upp á 17, 18, 19 milljarða munu minnka um helming, jafnvel þegar árið 2025. Þær tekjur munu hvergi duga til að standa undir (Forseti hringir.) þeim vegaframkvæmdum. Þess vegna hef ég horft með jákvæðum augum á vinnu umhverfis- og samgöngunefndar og er tilbúinn að halda þeirri vinnu áfram og samstarfi við almenning allan í landinu.