149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:09]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirgripsmikið yfirlit. Mig langar að nota tækifærið og ræða við hann um samgönguúrbætur á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur komið skýrt í ljós hjá þremur ráðherrum sem hafa talað að hugmyndir um vegtolla og breytta fjármögnun í samgöngumálum eru á hugmyndastigi. Gott og blessað. Það hefur jafn skýrlega komið í ljós að meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar hyggst taka málið út úr nefnd, ef ekki í þessari viku þá þeirri næstu, á umræðustigi. Og alveg sama hvað hæstv. ráðherra segir, hér erum við að tala um vegtolla, hlið, þótt rafræn séu.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess að hugmyndin eins og hún er núna er að taka u.þ.b. 40 milljarða út úr samgönguáætlun þeirri sem lá fyrir frá hæstv. ráðherra, verkefni á Stór-Reykjavíkursvæðinu og suðvestursvæðinu og setja þau verkefni frekar inn í vegtollaferli. Er ráðherra til viðtals um þær kröfur, m.a. borgaryfirvalda og okkar sem byggjum þetta svæði, að á móti komi þá alla vega skýr samningur (Forseti hringir.) um fjármögnun borgarlínunnar? Það er ekki heldur nefnt í þeim breytingum, látið liggja á milli hluta með þá fjármögnun, og ég spyr ráðherra: Er það inni í myndinni á sama tíma og verið er að ræða breytingu á fjármögnun að borgarlínan sé handsöluð, samkomulag ríkis og sveitarfélaga, um fulla fjármögnun?