149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:13]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er það sem hefur átt sér stað í samtölum við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Við erum á allt öðrum stað en við höfum verið í mörg ár í samskiptum ríkis og borgar og SSH, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Við erum búin að gera viljayfirlýsingu um hvernig við sjáum hlutina fyrir okkur og að því hefur síðan verið unnið og þær tillögur m.a. kynntar fyrir umhverfis- og samgöngunefnd til að þær geti farið inn í samgönguáætlun að einhverju leyti.

Síðan lá líka ljóst fyrir að á næstu mánuðum, eins og ég sagði áðan, í febrúar eða mars, í tengslum við fjármálaáætlun og við aðra hluti yrði gengið frá bindandi samkomulagi við SSH, milli ríkis og sveitarfélaga, um fjárhagslegar skuldbindingar. Það er ekki hægt að gera núna vegna þess að við höfum ekki allt í höndunum til þess. Það verður hins vegar hægt á næstu mánuðum. Þess vegna getur skipt máli að við tökum umræðu um samgönguáætlun og hina miklu kerfisbreytingu sem er að verða, þannig að við séum öll betur með það í puttunum og skiljum útfærsluna betur. Það getur vel verið að við þurfum að fara (Forseti hringir.) okkur aðeins hægar, en það breytir því ekki að við getum þurft að klára samgönguáætlun og halda áfram á tímalínunni og svo kemur ný samgönguáætlun í haust. Það er markmiðið.