149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:19]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar hefur verið og er mjög skýr. Við höfum forgangsraðað fjármunum fyrst og fremst í þágu heilbrigðiskerfisins, m.a. til að lækka greiðsluþátttöku þeirra sem minna hafa á milli handanna. Við höfum verið að skoða breytingar á skattkerfinu til að lækka skattbyrði lágtekjufólks og þeirra sem eru með lægri millitekjur. Við höfum gert ýmislegt í velferðarkerfinu sem snýr nákvæmlega að þessum sömu þáttum þannig að forgangsröðunin hefur verið alveg skýr og er búin að vera það í nokkurn tíma. Afleiðingin er sú að of litlir fjármunir hafa farið til samgöngumála. Við erum þó búin að auka þá umtalsvert, höfum tekið hluta af arðgreiðslum bankanna og sett í framkvæmdir til næstu þriggja ára, 5,5 milljarða á ári í þrjú ár sem fara beint í framkvæmdir. Það gerir að verkum að framkvæmdastigið næstu þrjú ár er miklu hærra en ella.

Þegar við lögðum fram samgönguáætlun kom hins vegar í ljós að eftirspurnin eftir framkvæmdum, löngun manna til þess að fá betri öruggari vegi, var miklu meiri en við gátum svarað með henni. Þess vegna orðuðum við það svo í samgönguáætlun að það mætti hugsa sér aðrar leiðir. (Forseti hringir.) Það er sú vinna sem er í gangi. Hún er ekki illa ígrunduð. Hún er skynsamleg og mun gera stórkostlega hluti til þess að auka umferðaröryggi á landinu ef við förum þá leið.