149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:22]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gæti svo sem haft mjög stór orð uppi um það sem ég vil nánast kalla ósvífni í þessum málflutningi. Fyrst ætla ég að vitna til minna eigin orða í andsvari við síðasta ræðumann um að við notum einmitt eignatekjur, arðgreiðslu bankanna næstu þrjú árin, í stórfellda uppbyggingu í vegakerfinu; að sjálfsögðu skapast umferðaröryggi við þær aðstæður. Eins og ég fór yfir, þegar samgönguáætlun var lögð fram, var miklu meiri krafa uppi um frekari og hraðari uppbyggingu, sérstaklega í þágu umferðaröryggis, og ég get ekki verið meira sammála. Ef fólk er farið að upplifa að það sé orðið hættulegt að fara í flug til Keflavíkur eða keyra á milli þéttbýlisstaða á suðvesturhorninu — og getur ekki valið sér búsetu eftir þeirri tilfinningu — vegna þess að það treystir sér ekki til þess að aka á vegunum þurfum við einfaldlega að gera eitthvað. Þess vegna var það skrifað inn í samgönguáætlun í haust að við værum að leita annarra leiða og við erum enn að leita annarra leiða.

Þær leiðir koma ekki í veg fyrir að við höldum áfram á þeirri braut sem skrifuð er í stjórnarsáttmálann. Við erum hins vegar tilbúin að hugsa út fyrir boxið. Við erum tilbúin að fara í (Forseti hringir.) kerfisbreytingar í þágu umferðaröryggis, í þágu þess að bæta vegakerfið hraðar en í stefndi, vegna þess að forgangsröðunin hefur hingað til fyrst og fremst verið í þágu heilbrigðiskerfisins.