149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:26]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Trú á framtíðina endurspeglast sterkt í grunngildum okkar í Viðreisn, hvort sem við ræðum alþjóðasamstarf, gjaldmiðilsmál, velferðar-, umhverfis- eða jafnréttismál. Við höfum jafnframt talað fyrir því að við megum ekki festast í fortíðinni þótt brýnt sé að við lærum af henni þegar við fetum okkur inn í framtíðina. Það er því vissulega hluti af fortíðinni og sögunni að fyrir rúmu ári sameinuðust þrír elstu flokkarnir á Alþingi um myndun ríkisstjórnar. Yfirlýst markmið þeirra var stöðugleiki. Það markmið studdum við í Viðreisn heils hugar og sögðum að gefa yrði þessari ríkisstjórn tækifæri, að þetta væri áhugaverð tilraun, en við myndum á sama tíma ekki gefa afslátt af þeim málum sem eru okkar hjartans mál.

Nú, rúmu ári síðar, er ekki hægt að segja að sá stöðugleiki sem ríkisstjórnin stendur fyrir sé af því tagi sem við í Viðreisn getum stutt því að um hreina og klára kyrrstöðu er að ræða. Á fyrsta heila ári ríkisstjórnarinnar, sem lagði af stað með þau fyrirheit að taka á stóru málunum, er það helst að frétta að stærsta mál ríkisstjórnarinnar á árinu 2018 var að knýja í gegn milljarða króna lækkun veiðigjalda á stórútgerðir fyrir einkarétt á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Ríkisstjórnarflokkarnir voru fullkomlega einhuga um að forgangsraða í þágu stórútgerðarinnar. Ég held að í engu máli hafi þessi einhugur og samstaða birst okkur jafn ríkulega og í lok síðasta árs.

Síðasta haust var síðan samgönguáætlun kynnt með pompi og prakt. Talað var um fullfjármagnaða samgönguáætlun, þrekvirki að mati samgönguráðherra, sem við getum nefnt hér A, þar til að samgönguráðherra sem við nefnum B kom til sögunnar ásamt fylgisveinum og kynnti hugmyndir sínar sem voru af allt öðrum meiði. Vandræðagangurinn í þessu máli ríður ekki við einteyming.

Nú er hæstv. samgönguráðherra, eins og við heyrðum áðan, kominn á harðasprett undan eigin orðum og stefnu. Þær tillögur sem nú eru uppi á borðum fela í sér stórfelldar skattahækkanir á suðvesturhornið. Þær eru enn á teikniborðinu. Það er mjög alvarlegt. Þetta er í boði Sjálfstæðisflokksins.

Hugmyndinni sjálfri um veggjöld hefur gjörsamlega verið klúðrað af stjórnarflokkunum. Er erfitt eftir alla þessa heimatilbúnu ringulreið þeirra að treysta þeim til að koma með heilbrigða, heildstæða, umhverfisvæna, metnaðarfulla og fjármagnaða samgönguáætlun sem lítur til framtíðar fyrir landsmenn alla og er ekki minnisvarði um hanaslag manna innan stjórnarflokkanna.

Lítið meira er svo sem að frétta af stóru málum ríkisstjórnarinnar, en svo að allrar sanngirni sé gætt vil ég nefna til skjalanna umhverfismálin þar sem mikilvæg skref voru stigin. Auðvitað verðum við vör við einhverja ólund af og til í hinum og þessum málum. Sjálfstæðismenn setja vissulega í brýrnar í hvert sinn sem hæstv. heilbrigðisráðherra boðar fleiri breytingar sem þrengja að einkaframtakinu, skrifa jafnvel nokkrar greinar um það í málgagnið en gera síðan ekkert til þess að stoppa ráðherrann. Fjármálaráðherra segist í öðru máli ekki styðja heildarendurskoðun á stjórnarskrá líkt og segir í stjórnarsáttmálanum þó að forsætisráðherra sé að vinna að því af einlægni og mikilli festu. Síðan sjáum við að hvalveiðistefnu er jafnvel breytt í pípunum hjá sjávarútvegsráðherra þvert á vilja Vinstri grænna. Þegar allt kemur til alls er alveg ljóst hver forgangsröðun ríkisstjórnarinnar var á síðasta ári í stóru málunum, það var í gríðarlegri milljarðalækkun til stórútgerðarinnar. Við sitjum enn uppi með það og erum að reyna að redda ríkisstjórninni frá því að fara í stórfelldar skattahækkanir, ekki síst á suðvesturhorninu.

En hvað með árið 2019? Til skamms tíma litið snúa mikilvægustu pólitísku verkefnin að því hvernig ríkisstjórnin hyggst koma að kjarasamningum. Það liggur í hlutarins eðli að aðkoma ríkisstjórna á hverjum tíma að kjarasamningum er vandasöm. Gera verður þá kröfu til ríkisstjórnarinnar að hún geri aðilum vinnumarkaðarins og kjósendum skýra grein fyrir því að þátttaka ríkisins í lausn kjarasamninga byggist á að samningsaðilar tryggi frið á almennum vinnumarkaði. Ríkisstjórnin lagði mikið kapp á samtal við vinnumarkað í upphafi þessa samstarfs. Það er gott og blessað. En ég hefði ætlað að fyrir lægi skýr sýn ríkisstjórnarinnar um aðkomu að hugsanlegum skattbreytingum, en við vitum öll að þingmenn þessara flokka eru ekki sammála um þá nálgun. Hér þarf að vanda sig. Mistök stjórnarflokkanna í þessu brýna máli munu koma beint í bakið á launþegum, einkum þeim tekjulægstu, í formi dýrkeyptra vaxta- og verðhækkana ef ekki er rétt á málum haldið.

Bæði fyrir kosningarnar 2016 og síðan 2017 lögðum við í Viðreisn fram hugmyndir okkar í þessum efnum. Þær miða að því að nýta það svigrúm sem er til staðar til að ná fram markmiðum um frekari jöfnuð og tryggja aukinn kaupmátt lægstu launa. Það liggur fyrir að skattbyrði þess hóps hefur aukist mest á umliðnum árum. Þetta verðum við að þora að horfast í augu við. Það þýðir lítið að detta í afneitun eða fara í talnaleiki eins og sumir ráðherrar í ríkisstjórninni hafa gert.

Okkar hugmyndir byggjast á tillögum samráðsvettvangs um aukna hagsæld og fela m.a. í sér róttæka uppstokkun á núverandi skattkerfi, að það verði meira í átt að auknu tekjujöfnunartæki. Við viljum beina persónuafslættinum til þeirra sem lægst hafa launin, hækka skattleysismörk og lækka skattprósentu lægra skattþrepsins. Við erum líka með tillögur til að lækka matarkörfuna hjá fjögurra manna fjölskyldu um tæplega 70.000 kr. á mánuði með því að afnema hindranir á landbúnaðarvörum en auka á móti beingreiðslur til bænda. Öflugri neytendur þýða sterkara umhverfi fyrir bændur. Þið megið treysta því að við í Viðreisn munum halda áfram að ræða krónuna okkar því að við viljum jafna aðstöðumun í íslensku samfélagi og auka samkeppnishæfni Íslands.

Við hvetjum jafnframt aðila vinnumarkaðarins til að taka gjaldmiðilsmálin föstum tökum. Í samanburði við önnur lönd stendur Ísland vel að vígi þegar kemur að mati á launajöfnuði. En þegar horft er á eignadreifinguna er ójöfnuðurinn hins vegar miklu meiri. Ein af ástæðunum fyrir því er gjaldmiðillinn. Það er ekki aðeins að hann viðhaldi hærri vöxtum en eru í samkeppnislöndum okkar, hann leiðir til óréttlætis vegna þess að öflugir fjármagnseigendur geta hvenær sem er farið út úr krónuhagkerfinu en aðrir, eins og almennt launafólk, geta það ekki. Afleiðingin er sú að hvergi á Vesturlöndum er meiri ójöfnuður á fjármagnsmarkaði. Og hvað þýðir það á mannamáli? Það þýðir að þeir efnuðu efnast meira en hinn venjulegi launamaður situr fastur í krónufjötrum.

Veruleikinn er því sá að án róttækra umbreytinga í gjaldmiðils- og peningamálum munum við ekki ná markmiðum um varanlegan efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Nútímastjórnmál krefjast þess að við þorum að huga að framtíðinni, að við finnum framtíðarlausnir fyrir landsmenn sem skila sér í aukinni hagsæld og jöfnum tækifærum. Það er það sem Viðreisn stendur fyrir.

Við fáum oft að heyra að umræða um ákveðin mál sé ekki tímabær, ekki núna, bara einhvern tímann seinna. En við hljótum að spyrja: Hvenær verður hún tímabær? Eftir næsta hrun eða næstu uppsveiflu eða hrunið þar á eftir? Ef við skoðum söguna vitum við að þetta er það sem við búum við, óstöðugleiki og ófyrirsjáanleiki. Slíkt ástand er vont fyrir heimilin í landinu og þau fyrirtæki sem geta ekki gert upp í erlendri mynt. Ójöfnuðinum er þannig viðhaldið og það í boði þessarar kyrrstöðuríkisstjórnar.

Frú forseti. Herra forseti — það er eins gott að hafa það á hreinu. Það var nokkuð ljóst þegar þessi ríkisstjórn var mynduð að alþjóðamálin yrðu sett á ís. Höfum í huga að það er fátt sem ræður í raun meiru um lífskjör fólksins í landinu en það hvernig við komum ár okkar fyrir borð í fjölþjóðlegum samningum um efnahagsmál og viðskipti. Öryggi okkar og fullveldi er líka komið undir ákvörðunum á því sviði. Engin greiningarvinna er í gangi til að greina breytingar á alþjóðavettvangi og áhrif þeirra á Íslandi. Það er ein stærsta brotalömin í stjórnarsamstarfinu þegar horft er til framtíðar. Til þess að breyta því þarf framfararíkisstjórn sem getur leyst þessa kyrrstöðustjórn af hólmi. Sennilega er til of mikils mælst að ríkisstjórnin sjálf breyti um stefnu en hún gæti látið hefja sérfræðivinnu sem gæti orðið grundvöllur umræðu og síðan stefnumótunar.

Ég vil því hvetja hæstv. forsætisráðherra til dáða í þessum efnum og til að sýna frumkvæði. Sinnuleysi í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar mun reynast okkur afar dýrkeypt. Viðfangsefni stjórnmálamanna og stjórnmálanna allra er fyrst og fremst nútíminn og framtíðin. Framtíðinni sláum við ekki á frest. Fortíðin er það sem við eigum að læra af, skilja og þakka fyrir. Það væri því kærkomið ef við gætum sammælst um það, komið okkur að verki og komið okkur inn í framtíðina.