149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:45]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður verði að fara að átta sig á því að ég er ekki lengur í Sjálfstæðisflokknum; hann verður bara að sætta sig við það og hlusta á þá gagnrýni sem ég hef fram að færa. Ég verð að viðurkenna að mér er hlýtt til míns gamla flokks. Mér svíður að sjá að hann hefur ekki lengur þá breiðu skírskotun sem hann hafði á árum áður. Mér finnst erfitt og allt að því skringilegt að sjá Sjálfstæðisflokkinn leggja beint og óbeint fram tillögur sem fela í sér stórfelldar skattahækkanir á tiltekið svæði á landinu okkar. Mér finnst það sárt og ekki í samræmi við það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur rætt um í gegnum tíðina.

Hv. þingmaður kom inn á það hvernig við viljum byggja upp vegakerfið okkar. Að sjálfsögðu viljum við byggja það upp. Við í Viðreisn erum reiðubúin að fara yfir allar tillögur þar sem málið er skoðað heildstætt. En við viljum ekki þvinga eitt landsvæði umfram annað inn í form veggjalda sem fela í sér stórfelldar skattahækkanir á það svæði. Það snýst ekkert um annað.

Hvalfjarðargöngin eru einmitt gott dæmi um það hvernig hægt var að taka veggjöld, hvernig hægt var að fjármagna mikilvæga framkvæmd. Þau eru dæmi um fyrirmyndarframkvæmd. En það var líka hægt að bjóða almenningi að keyra aðra leið. Það var til önnur leið sem hægt var (Gripið fram í.) að velja. Og hvað ætlar hv. þingmaður að bjóða Suðurnesjamönnum upp á, að fara Krýsuvíkurleiðina? Nei, úps … (Gripið fram í.) að fara Krýsuvíkurleiðina og koma síðan Suðurlandsveginn inn í borgina? Nei, heyrðu, þar verða líka veggjöld. (Gripið fram í.) Suðurnesjamenn eru ágætt dæmi, þeir þurfa að greiða fyrir allar þær (Gripið fram í.) leiðir sem þeir (Forseti hringir.) þurfa að fara til að komast leiðar sinnar.

Þetta er vanhugsað eins og þetta er gert og mér finnst það sárt því að hugmyndin um að greiða fyrir notkun er góð. Mér finnst sárt að sjá að það er ekki síst Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur eyðilagt þá aðferðafræði.