149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara segja að ég var að hrósa hv. þingmanni fyrir glæsilegan árangur hjá syni hennar en ekki öfugt og hrósa henni sem móður.

Varðandi þau stóru mál sem Viðreisn hefur flaggað svo mikið hér á þingi fannst mér ekki koma fram í máli hv. þingmanns hvort flokkurinn væri tilbúinn áfram að gefa afslátt af þeim ef möguleiki væri á ríkisstjórnarsamstarfi. Það kom fram í hennar máli áðan að enginn afsláttur yrði gefinn af prinsippmálum, afsláttur sem búið er að gefa við fyrstu ríkisstjórnarmyndun sem flokkurinn hafði möguleika á að ganga inn í. Ég held að hann sé enn að sleikja sárin eftir að sú ríkisstjórn sprakk.

Stórmál eins og ESB og innganga í ESB hefur auðvitað einhverja kosti og galla. Mér hefur í gegnum tíðina aldrei þótt verið dregnir fram þeir vankostir við að ganga í ESB þegar allt logar í deilum innan Evrópusambandsins í dag með Brexit og eins og ástandið er í ýmsum ríkjum innan sambandsins.

Varðandi gjaldmiðil hefur mér þótt það vera einföldun í umræðunni að hægt væri að taka upp evruna án þess að ganga í Evrópusambandið og allt sem fylgir þeim pakka. Það er bara ekki í boði að taka upp evru án inngöngu í Evrópusambandið. Þess vegna hefur mér þótt þetta vera málflutningur þar sem menn fleyta kerlingar til að einfalda málið, það sé hægt með einu pennastriki að lækka vexti á Íslandi, koma vöruverði niður og ýmislegt í þeim dúrnum án þess að með fylgi (Forseti hringir.) allur sá listi sem yrði til vansa fyrir íslenskt samfélag og myndi gjörbreyta sjálfstæði okkar í efnahagsmálum.