Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[19:10]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir andsvarið. Já, það er gott að við skulum vera komin með þennan gagnagrunn, svo sannarlega. En við þurfum kannski ekkert að geta skoðað neitt rosalega mikið. Við þurfum aðallega að einblína á það að þeir einstaklingar sem fá útborgað undir 300 þús. kr., kannski 220–240 þús. kr., fá einfaldlega allt of lítið útborgað. Þeir ná einfaldlega ekki endum saman þannig að ég er bara föst þar. Ég er bara föst þar, að líta þangað sem þörfin er mest og þangað sem fólk hefur verið á hnjánum og beðið um hjálp. Það er þangað sem ég lít.

Við skulum segja að í fyrirtækinu séu tíu einstaklingar og launin séu rosalega góð; það er talað um að það séu mjög góð meðallaun í þessu fyrirtæki. Níu starfsmenn eru með 400.000 kr. en forstjórinn er með 4 milljónir. Hver eru meðallaunin? Þau eru yfir 700 þús. kr. Við verðum líka að horfa kalt á staðreyndirnar. Hvað eru margir sem eru nákvæmlega á þeim stað að þeir geta ekki framfleytt sér, fólkið okkar sem er búið að vera að grátbiðja um hjálp. Það er þar sem ég er. Og ég er að höfða til okkar allra því að ég veit að okkur finnst það sanngjarnt og okkur finnst það réttlátt og við viljum hjálpa þessu fólki. Það er mín trú þannig að það er bara það sem ég er að kalla eftir. Ég er ekki að flækja málin neitt, ég get ekki horft víðar. Ég er föst þarna til að byrja með en mér finnst að þarna sé upphafið að öllum góðum verkum sem við eigum að vinna núna.