149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[19:13]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn fyrir andsvarið. Ég horfi líka til þess að við erum að tala um 220.000 kr. útborgaðar. Ég er með launaseðla frá fólki sem jafnvel fær svo lítið að það er þyngra en tárum taki. Það segir sig sjálft að grunnþörfum verður aldrei mætt, ómögulegt að útvega fæði, klæði og húsnæði. Það að sinna börnum sínum og veita þeim það sem almennt þykir eðlilegt og sjálfsagt er heldur ekki hægt og þar tala ég af reynslu.

Við hugsum um hvernig ríkisvaldið getur komið þar inn til þess að styðja enn frekar við þessar fjölskyldur og þá er ég líka að tala um börnin okkar sem búa við fátækt. Ég er að tala um sveitarfélög sem hafa kannski ekki ráð á því að aðstoða við skólamáltíðir eða skóladagheimilin þannig að litlu sex ára krakkarnir fara heim með lykil um hálsinn af því að pabbi og mamma geta ekki greitt fyrir skóladagheimili.

Það er í mörg horn að líta. Ef við einblínum á og afmörkum okkur nákvæmlega þarna, og erum ekki að vaða út um víðan völl akkúrat núna, gætum við komið til móts við verkafólkið okkar, láglaunafólkið okkar, og keyrt á þetta. Við verðum að byrja bara strax.

Ég vil trúa því að Vinstri grænir fari ekki að skorast undan merkjum. Þeir verða að standa sína plikt. Ég treysti því og trúi að svo verði og ég vil meina að öllum hér inni, þó að hér sé næstum enginn núna, finnist það mikið sanngirnis- og réttlætismál að við getum öll einbeitt okkur að þessu. Það er sagt að það sé betra að einbeita sér að einu í einu og gera það vel og skilmerkilega frekar en að vaða út um víðan völl og gera allt hálfilla.

Þetta er það verkefni sem ég sé fyrir mér að við þurfum að takast á við núna strax til að slökkva elda og koma til móts við þá sem hafa verið á hnjánum síðustu árin og beðið okkur um hjálp, þá sem hafa kosið okkur til þess að hjálpa sér.