149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

hvalveiðar.

[13:34]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Útgáfa leyfa vegna hvalveiða heyrir reyndar undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem er hér líka til svara, en ég skal með gleði fara yfir það hvar þetta mál er statt.

Hv. þingmaður vitnaði réttilega í mig þar sem ég benti á nauðsyn þess að við mætum áhrif hvalveiða út frá forsendum sjálfbærni áður en ný ákvörðun væri tekin. Mér finnst eðlilegt og faglegt að gera það. Fyrir liggur að flokkarnir í ríkisstjórninni hafa mjög ólíka sýn, og flokkarnir á Alþingi, á hvalveiðar en um þær er ekki fjallað sérstaklega í stjórnarsáttmála. Þar var ekki tekin nein pólitísk ákvörðun um framhaldið heldur að við yrðum fyrst og fremst að láta þetta mat fara fram.

Það sem hefur verið gert í þeim efnum er að Hafrannsóknastofnun hefur skilað skýrslu um stöðu hvalastofna við Ísland og síðan skilaði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skýrslu sinni að ósk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Eins og fram hefur komið, bæði hjá hv. þingmanni og öðrum, hefur komið fram ákveðin gagnrýni á þá skýrslu og fyrir liggur að fara þarf yfir hana og þær forsendur sem eru fyrir hendi hvað varðar annars vegar stofnstærð stofnanna, efnahagsleg áhrif og hvort við teljum umfjöllun skýrslu Hagfræðistofnunar fullnægjandi. Á þeim forsendum verður ný ákvörðun byggð. Og af því að hv. þingmaður spyr hvort búið sé að taka þessa ákvörðun get ég sagt hv. þingmanni að sú ákvörðun hefur ekki verið tekin, hún þarf að byggjast á þessum forsendum. En ég vil þó segja, og það er raunar ekki í fyrsta sinn sem ég segi það, að ég tel þau tæki sem stjórnvöld hafa til að meta það sem ég vil kalla sjálfbærni tiltekinnar auðlindanýtingar, hvort sem um er að ræða veiðar úr fiskstofnum eða nýtingu orkuauðlinda — ég tel um margt þau tæki enn vanbúin. Ég get farið yfir það nánar í seinna svari mínu, t.d. hvernig ég tel þau vanbúin þegar kemur að (Forseti hringir.) nýtingu orkuauðlinda.