149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

hvalveiðar.

[13:38]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég get gefið hv. þingmanni sama svar og ég hef áður gefið öðrum hv. þingmönnum. Það svar er á þá leið að um þetta er ekki samið í stjórnarsáttmála. Flokkarnir þrír hafa ólíka sýn á þetta mál og sú leið sem við höfum valið að fara er að byggja ákvörðunina á eins faglegum sjónarmiðum og unnt er.

Ég nefndi áðan að við nýtingu auðlinda hafa mér oft þótt stjórnvöld vera vanbúin af tækjum. Ég ætla að nefna eitt dæmi. Í rammaáætlun gerum við ráð fyrir því að meta eigi sjálfbærni nýtingar auðlinda út frá umhverfisþáttum, efnahagsþáttum og samfélagsþáttum. Við síðustu umræðu á vettvangi Alþingis um rammaáætlun var í raun viðurkennt að við hefðum ekki tæki til að meta samfélagsleg áhrif. Kannski stöndum við að einhverju leyti frammi fyrir því að þurfa að meta umhverfisáhrifin út frá stofnstærð — og dýraverndarsjónarmiðum að einhverju leyti þegar kemur að veiðitíma, en fyrst og fremst út frá stofnstærð og hvort við metum það svo að þessar tegundir séu í hættu og hins vegar út frá hinum efnahagslegu (Forseti hringir.) áhrifum sem kannski er auðveldara að meta. En ný ákvörðun hefur ekki verið tekin því að við eigum eftir að fara betur yfir þau gögn sem fyrir liggja og skoða hvort ástæða er til að afla frekari gagna til að byggja ákvörðunina á.