149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

vinnuálag lækna.

[13:39]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Læknafélag Íslands kynnti í gær niðurstöður könnunar meðal félagsmanna sinna um líðan og starfsaðstæður. Fyrst ber að nefna að þátttaka, aldurs- og kynjadreifing var mjög góð en það gerir niðurstöðurnar bara enn meira sláandi. Ríflega 30% lækna á Íslandi eru í vinnunni í meira en 60 klukkustundir á viku og 4% þeirra vinna yfir 80 klukkustundir á viku. Þótt þeir vinni alla daga vikunnar eru það samt 12 tímar á dag. Áhrif langvarandi streitu á dómgreind eru vel þekkt. Smáatriði fara fram hjá okkur, samskipti versna og mistök eru gerð. Ég er ekki að segja að þessi 30% lækna séu að gera mistök en áhættan er sannarlega meiri hjá þeim en öðrum.

Annað atriði sem vert er að hafa í huga þegar niðurstöður þessarar könnunar eru skoðaðar eru líkur á kulnun í starfi. Ábyrgð lækna er mikil og álagið er stöðugt. Þegar ofan á það bætist óhóflegur vinnutími spyr maður hvenær varnirnar bresta. Rannsóknir hafa einnig sýnt að styttri vinnudagur hjá læknum fækkar veikindadögum gríðarlega með tilheyrandi ábata fyrir rekstur heilbrigðiskerfisins.

Spurning mín til hæstv. heilbrigðisráðherra er: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að bregðast við þessum upplýsingum og til hvaða aðgerða þarf að grípa svo hægt sé að tryggja heilbrigðisþjónustu á Íslandi án þess að setja heilsu starfsfólks í hættu? Höfum líka í huga að við vitum að nýjar kynslóðir lækna eru kannski ekki alveg jafn tilbúnar til að vinna þessar löngu vaktir og þær kynslóðir sem komu á undan. Það er augljóst að þarna þurfa einhverjar breytingar að koma til.