149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

vinnuálag lækna.

[13:43]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka svörin. Það er gott að heyra að niðurstaða könnunarinnar verði skoðuð nánar. En þetta var bara dálítið sláandi og tengist inn í alla umræðu um styttingu vinnuvikunnar, sem ég vil meina að sé svo sannarlega ekki bara á höndum félags- og barnamálaráðherra heldur einnig heilbrigðismál, sérstaklega þegar við lítum á hversu mikið kulnun í starfi hefur aukist.

Það væri áhugavert að heyra hvort hæstv. heilbrigðisráðherra er sammála mér hvað það varðar að þetta sé heilbrigðismál, að við þurfum að skoða það að stytta vinnuvikuna. En einnig væri áhugavert að heyra frá hæstv. ráðherra hvort þetta sé ekki spurning um að tryggja fjármagn til þess að heilbrigðisstarfsfólk geti unnið innan heilbrigðiskerfisins án þess að vinna endalausa yfirvinnu til að ná endum saman og hvort við horfum fram á að hægt verði að leysa þennan mönnunarvanda. Ég veit að við munum tala um það nánar á eftir í sérstökum umræðum varðandi hlutaúttekt landlæknis á bráðavanda Landspítalans. Erum við tilbúin til að leysa mönnunarvandann (Forseti hringir.) með því að leggja aukið fjármagn í það og hækka laun t.d. hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða og fleiri sem ekki ráðast til þessara starfa?