149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

fjarheilbrigðisþjónusta.

[13:46]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Fjarheilbrigðisþjónusta varðar málaflokk sem við Íslendingar erum sorglega lítið farin að tileinka okkur, hvort heldur er að nýta þá nýsköpun og tækni sem þegar er til staðar eða hvað varðar skipulag heilbrigðisþjónustunnar sjálfrar. Óþarfi er að fjölyrða um þann ávinning sem hlytist af því fyrir landsbyggðarfólk að nýta sér sérhæfða heilbrigðisþjónustu ýmiss konar á þéttbýlissvæðum með aðstoð slíkrar tækni svo ekki sé nefnt hversu jákvætt það væri fyrir dreifðari byggðir að geta með nýtingu slíkrar tækni og nýrri nálgun í heilbrigðisþjónustu laðað til sín heilbrigðisstarfsfólk, sérfræðinga, sem gæti sinnt bæði nær- og fjærumhverfi sínu á þennan hátt.

Ég hef lagt inn beiðni um sérstakar umræður við hæstv. heilbrigðisráðherra um þennan málaflokk, en mig langar að þjófstarta núna og spyrja sérstaklega um fjárfestingu ráðuneytisins á tækjabúnaði til fjarheilbrigðisþjónustu á Suðurlandi og Austurlandi, sem farið var í fyrir tæpu ári. Þá var því fagnað sérstaklega með málþingi á Kirkjubæjarklaustri að bæði Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefðu fengið tækjabúnað frá ráðuneytinu til notkunar á átta stöðum innan þessara heilbrigðisumdæma. Búnaðurinn var keyptur fyrir styrktarfé velferðarráðuneytisins. Af hálfu heilbrigðisstofnananna sem um ræðir voru eðlilega miklar væntingar til þeirrar nýju tækni og breyttrar nálgunar.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er þessi búnaður kominn í notkun á því tæpa ári sem liðið er? Hvernig hefur reynslan verið? Og hvers konar breytingar, ef einhverjar, hafa verið gerðar á greiðslukerfi í heilbrigðisþjónustunni í tengslum við þá nýjung sem fjarheilbrigðisþjónustan er? Hafa íbúar umræddra heilbrigðisumdæma notið góðs af þeirri fjárfestingu?