149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

fjarheilbrigðisþjónusta.

[13:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þjófstartið því að sannarlega er hér um að ræða spurningar sem ég þyrfti meira ráðrúm til að afla mér gagna um. Hún spyr um tiltekna fjárfestingu í tiltekinni þjónustu. Ég get þó sagt að við sjáum gríðarlega mikil sóknarfæri í þessu sem alla jafna er kallað fjarheilbrigðisþjónusta. Ég held að það skipti miklu máli fyrir okkur öll að tala um núverandi þjónustu sem er bætt með aukinni og bættri tækni, þ.e. að ekki sé um að ræða í raun og veru nýja þjónustu heldur þjónustu sem verður enn aðgengilegri óháð búsetu. Þá erum við sérstaklega að horfa til þeirra þátta sem lúta að styrkingu heilsugæslunnar og aukinni áherslu á sálfræðiþjónustu og geðheilbrigðisþjónustu í framlínu heilbrigðisþjónustunnar.

Hv. þingmaður spurði sérstaklega um Suðurland og Austurland og nefndi í því sambandi Kirkjubæjarklaustur. Nýlega fékk ég, ég held að það hafi verið fyrir áramót, í október eða nóvember, skýrslu þar sem allir þessir aðilar höfðu saman sest yfir það hver væru helstu sóknarfæri okkar í fjarheilbrigðisþjónustumálum. Niðurstaða þess var að fela Sjúkrahúsinu á Akureyri að vera lykilaðili í því að skipuleggja og byggja upp fjarheilbrigðisþjónustu um landið gjörvallt. Þar horfum við líka til sérstakrar fjármögnunar í gegnum byggðaáætlun. Í byggðaáætlun eru eyrnamerktir peningar til að byggja upp og bæta fjarheilbrigðisþjónustu.

Ég vil bara segja það í þessari umræðu að ég vil gjarnan verða við beiðni um sérstaka umræðu um þessi mál þar sem hægt er að undirbúa betur og skoða töluleg gögn og staðreyndir í þessu máli þannig að það sé meira bit í mínum svörum en er hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma. En það er alveg ljóst að þarna eru mjög mikil sóknarfæri og (Forseti hringir.) við erum rétt að byrja að nýta þau færi.