149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

fjarheilbrigðisþjónusta.

[13:50]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er svo sem alveg rétt að þetta eru ekki endilega upplýsingar sem ráðherra hefur á reiðum höndum með litlum sem engum fyrirvara en ég get upplýst hana um það að ég held að þau tæki séu ekki komin í notkun. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Þetta er kannski ákveðin viðvörunarbjalla fyrir okkur í þeim mikla málaflokki vegna þess að mjög slæmt væri ef við ætluðum að fara leið sem við þekkjum svolítið vel, sem er að ana út í fjárfestingar og kaupa hluti án þess að vera búin að setja nákvæmlega niður fyrir okkur stefnumörkun. Hvernig ætlum við að þjálfa heilbrigðisstarfsmenn í að nýta þetta sem og þá mikilvægu viðbót sem hæstv. ráðherra nefnir? Þarf námið að taka mið af því? Hvernig verður greiðslukerfið? Hver verður hvatinn til að nýta þá þjónustu? Hvað ætlum við raunverulega að fá út úr þeim fjármunum sem við leggjum í kerfið?

Ég fagna því að ráðherra ætlar að mæta með upplýsingar og vel vopnuð í sérstaka umræðu um þau mál. Ég held að þarna liggi ekki eingöngu mikilvægur vaxtarsproti fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu heldur er þetta einfaldlega eitt af þeim tækjum sem við þurfum (Forseti hringir.) að koma í lag og eigum að vera í fararbroddi með.