149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

skattkerfið og veggjöld.

[13:53]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um þær hugmyndir sem uppi eru í ríkisstjórn og stjórnarflokkum um álagningu vegaskatta á almenning í landinu. Nú er það svo að kjarasamningar eru lausir og hafnar eru viðræður við aðila vinnumarkaðarins. Í gær kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra að ríkisstjórnin ætlaði sér að koma með tillögur inn í þær viðræður á næstu dögum um lækkun skatta á sama tíma og fram eru lagðar hugmyndir um víðtæka skattheimtu í formi vegaskatts á allan almenning óháð efnahag.

Við jafnaðarmenn aðhyllumst þá stefnu að þeir borgi sem geti en þeir sem aðhyllast frjálshyggju í stjórnmálum tala meira fyrir því að þeir borgi sem noti. Þar sem flokkur hæstv. forsætisráðherra hefur lengst af flokkast sem vinstri flokkur sem talar fyrir auknum jöfnuði og þar sem í stefnu þess flokks má greina harða andstöðu gegn álagningu vegaskatts vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hennar flokkur standi einhuga á bak við tillögur stjórnarflokkanna um álagningu vegaskatta á almenning óháð efnahag. Ég vil einnig spyrja hvort þessi nýja skattheimta hafi verið rædd við aðila vinnumarkaðarins og þá hvort greind hafi verið þau hagrænu áhrif sem þessi nýja skattheimta muni hafa á almenning í landinu, ekki síst þá efnaminni þar sem um flata skattheimtu er að ræða.