149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

skattkerfið og veggjöld.

[13:57]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir þessi svör. Fjármagnstekjur eru skattlagðar mun minna en launatekjur á Íslandi og þarna má ætla að fá megi meira inn í ríkiskassann. Því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort áform séu uppi um það í ríkisstjórn hennar að leita fjármagns hjá hinum breiðu bökum áður en farið verður í skattlagningu á almenning óháð efnahag og getu í formi vegaskatts.

Orkuskiptin eru staðreynd en þau veggjöld sem ætlunin er að leggja á vegna minnkandi tekna þar koma víst ekki til umræðu fyrr en í mars samkvæmt nýjustu upplýsingum úr umhverfis- og samgöngunefnd, svo við erum ekki að tala um það að hér. Það er ekki tímabært að ræða það, en þar sem einmitt hefur verið talað um stórátak í loftslagsmálum vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig henni lítist á þær hugmyndir sem nú eru uppi um að einungis 7% af nauðsynlegu framlagi í borgarlínu séu í hugmyndum meiri hluta, þ.e. að leggja 800 milljónir á næstu fimm árum, á meðan árleg þörf er 2,25 milljarðar, í borgarlínu á hverju ári. Og hvernig líst henni á að ekki eigi að setja viðbótarfjármagn í almenningssamgöngur um allt land sem eru í algjöru uppnámi? Það myndi ég halda að væri einmitt liður í þessu loftslagsátaki.