149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

skattkerfið og veggjöld.

[13:58]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom með margar spurningar. Ég get glatt hana með því að það vill svo til að í þeim ríkisstjórnum sem ég hef setið hefur fjármagnstekjuskatturinn verið hækkaður. Fyrst var það gert 2009–2013 og svo var það aftur gert á síðasta ári. Ég greini því einhverja fylgni þar á milli, sem hv. þingmaður hlýtur að fagna.

Hins vegar er full ástæða til að bera saman þau fjármagnstekjuskattskerfi sem við höfum hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum, þar sem við höfum farið ólíkar leiðir. Skattprósentan er lægri á Íslandi en annars staðar en um leið eru undanþágur mun færri ef við lítum t.d. til Noregs þar sem skattprósentan er hærri en undanþágur mun meiri og gerður greinarmunur á ólíkum tegundum fjármagnstekna. Ég held að það sé áhugaverð umræða fyrir þingið.

Hv. þingmaður ræddi veggjöld og borgarlínu. Það liggur fyrir að undirbúningur ríkisins af hálfu borgarlínu er fjármagnaður í samgönguáætlun, 300 millj. kr. á árinu 2019 og 500 millj. kr. á árinu 2020. Það er ekki gert ráð fyrir því í hugmyndum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að framkvæmdir hefjist fyrr en 2021 og fyrir liggur viljayfirlýsing ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu (Forseti hringir.) um að við viljum vinna saman að því verkefni og að við ætlum okkur að fjármagna það þótt ekki sé búið að semja um endanlega (Forseti hringir.) skiptingu á því hvernig verkefnið verður fjármagnað.

Ég verð að segja að mér finnst fyrirspurn hv. þingmanns (Forseti hringir.) æðiafvegaleiðandi fyrir umræðuna þar sem skýr vilji liggur fyrir. Ég get glatt hv. þingmann með því að ríki og fulltrúar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (Forseti hringir.) eiga næsta fund um það verkefni á morgun, þannig að það gengur vel.