149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

stuðningur við landbúnað.

[14:00]
Horfa

Elvar Eyvindsson (M):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um stefnu og markmið varðandi stuðning við landbúnaðinn. Mörg ráðuneyti og margar stofnanir ríkisins koma að málaflokknum með einum eða öðrum hætti og hefur ríkið uppi margvíslegan stuðning við atvinnugreinina. En mér hefur oft fundist að það sé lítil eða engin heildarsýn af hálfu ríkisins á það á hvaða vegferð það er eða hvers vegna það vill styðja við landbúnaðinn. Er greinin látin einhvern veginn velkjast um frá einu skerinu til annars.

Mig langar að leggja fram dæmi. Ríkið heldur úti Matvælastofnun með miklum tilkostnaði með her dýralækna og sérfræðinga á mörgum sviðum. Hún býr til viðmið og heldur uppi eftirliti. Fullyrða má að hún veiti landbúnaðinum mikið aðhald og ýmsar ráðstafanir hennar valda einnig miklum kostnaði í framleiðslu og vinnslu. Flestir eru ágætlega sáttir við stífar reglur og aðhaldið þegar upp er staðið, enda er niðurstaðan sú að við stöndum að mörgu leyti miklu betur en aðrar þjóðir á mjög mikilvægum sviðum og samt vitum við að hægt er að gera betur.

En hvað gerist svo? Án mikils fyrirvara og án þess að menn virðist hafa af því miklar áhyggjur, hvað þá tilburði til að aðhafast eitthvað, er opnað fyrir stóraukinn innflutning, t.d. á kjöti frá löndum þar sem við vitum að aðhald og varúð er ekki viðhaft í sama mæli og hér. Sérstaklega er vert að nefna það sem kunnugt er, að virtir læknar hér á landi segja að sýklalyfjaónæmi sé ein mesta lýðheilsuógn mannkyns. Þeir telja jafnframt að innflutningur á hráu kjöti sé mjög til þess fallinn að raska góðri stöðu okkar, sem ekki er síst tilkomin vegna atbeina ríkisins í gegnum MAST.

En til hvers er þá farið í svona vegferð með gífurlegum kostnaði ef við fáum þessi vandamál innflutt frá öðrum löndum sem ekki hafa hugað að þessum hlutum? Stundum hefur þurft að fara í mjög íþyngjandi aðgerðir til að ná góðri stöðu. Var það tómt bull eða var þetta geðþóttaákvörðun stofnunar sem lifir í eigin heimi án leiðsagnar? Hægt væri að taka mörg fleiri atriði fyrir, svo sem Samkeppniseftirlitið, byggðamálin og efnahagsmálin í stóru samhengi.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún geti tekið undir það með mér að það sé eins og heildarsýn vanti. Er hún tilbúin að vinna að því að búa hana til og veita svo þá pólitísku forystu sem þarf til að draga þennan marghöfða þurs ríkisvaldsins (Forseti hringir.) að settu marki?